Krásir

Mér finnst ekki hægt að orða það á annan veg. Krásir. Þá er ég að tala um sex binda safnið Íslenskar smásögur. Hef minnst á það áður í pistli og kallaði Gersemar í góðu bandi.

Er núna að ljúka sjötta bindinu. Það er aldeilis yndisleg bók. Til að treina hana stansa ég við eftir hverja smásögu og legg bókina frá mér og smjatta á sögunni. Og svo ég láti eftir mér að nefna nokkra af höfundunum þá eru þarna, m.a:

Brecht, Borges, Hemingway, Heinessen, Steinbeck, Singer, Bellow, Böll, Cortasar, Camus, O,Hara, Graham Greene og fleiri. Í allt eru í sjötta heftinu 29 smásögur eftir jafnmarga höfunda.

Þá er ekki hægt annað en nefna nokkra af þýðendum smásagnanna, en þeirra á meðal eru þessir miklu snillingar tungunnar: Halldór Kiljan þýðir Ljós heimsins eftir Hemingway, Þorgeir Þorgeirsson Atlöntu eftir Heinesen. Þessar tvær þýðingar eru listaverk. Sigfús Daðason þýðir Sjóliðann eftir Wescott. Svo ég nefni einhverja.

Æ, æ. Ég get ekki setið á mér að nefna þetta. Er kátur og glaður yfir þessum frábæru höfundum. Stórkostlegur félagsskapur. Krásir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.