Á ferð um hérað

Það er nú einhvern veginn svo og sennilega tengt minningum frá æsku, að störf bændanna hrífa ávalt hjartað í gömlum karlinum. Á þessum sérlega blíðu dögum undanfarnar vikur hafa bústólpar slegið og hirt sín tún á undraskömmum tíma. Slegið um kvöld, rúllað, eins og það heitir nú til dags, síðdegis næsta dag og keyrt saman í stæður á þriðja degi.

Heyvinnuvélar á einum bæ í nútímanum eru svo stórvirkar að þær afkasta langleiðina á við heila sveit fyrir liðlega hálfri öld. Þá var enn farið með orf og ljá í úthaga og hjakkað í þýfi, í mýrum og á lækjarbökkum fram að réttum. Nú afgreiða margir bændur túnin sín á einni til tveim vikum og láta tækin um puðið. Það mátti vissulega breytast.

Það er svo önnur saga og áleitin spurning hvort fjárhagsafkoma þeirra sé nokkuð betri nú en þá. Manni heyrist að rándýrar vélarnar, eldsneytisverð og vaxtakrafa bankanna hirði rjómann af veltunni. Hvað um það. Það heitir væntanlega þróun.

Ég ætlaði að setja hér inn tvær til þrjár myndir af vinnubrögðum sem glöddu augað á ferð um hérað. Því miður er einhver hængur í Word pressinu svo mér tekst það ekki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.