Beinagrindin og Óreiðan

Hún kom í morgun á beinunum einum saman og sagði að nú væru þrjár vikur liðnar síðan læknarnir fóru inn í hrygginn á henni með hnífa og bora til að skera og skrapa. Sér liði bærilega í dag. Svo spurði hún hvort hún mætti ekki sitja og fylgjast með smástund. Hana langaði að halda upp á daginn. Þetta væri góður dagur í beinavökulegu tilliti.

Það eru vikusálirnar sem hittast hér. Samlíkingin er frá Rousseau: „Ég er ofurseldur tvennskonar lunderni sem skiptist mjög reglulega á […] og kalla ég það vikusálirnar mínar…“

Stundum gengur þetta þannig fyrir sig að þegar önnur sálin yfirgefur hólkinn og hin kemur inn, þá mætast þær og horfast augu. Í önnur skipti þykist hvorug sjá hina. Stundum hendir að önnur er glaðleg. Þá reynir hún að hefja samtal.

Beinagrindin

Beinagrindin settist við lyklaborðið hjá Óreiðunni. Hún lagði hönd á músina og hallaði sér upp að tölvunni. Svo hún hóf samtalið:

Óreiðan

Beinagrindin: Um hvað ætlar þú að pistla í dag?
Óreiðan: (Þögn)
Beinagrindin: Ha?
Óreiðan: Hjálpræðisherinn.
Beinagrindin: Hvað er með hann?
Óreiðan: Hann hefur staðið vakt í hundrað ár.
Beinagrindin: Er það gott?
Óreiðan: Mjög. Svo er hann hógvær.
Beinagrindin: Er það kostur?
Óreiðan: Já. Og laus við græðgi.
Beinagrindin: En eru ekki þessir búningar svolítið klikkaðir?
Óreiðan: Þeir hylja egóið.

Beinagrindin: Það tala margir um ferjur þessa dagana.
Óreiðan: Já. Ekki vanþörf á.
Beinagrindin: Um hvað snýst málið?
Óreiðan: Að tapa peningum.
Beinagrindin: Tapa?
Óreiðan: Já, eða sóa. Sumir tala um hollvinavæðingu.
Beinagrindin: Hvernig er það?
Óreiðan: Ríkið selur vini sínum ferju á þrjátíuogsjömilljónir á mánudegi. Vinurinn selur hana aftur næsta mánudag á hundraðmilljónir. Mismunurinn, sextíuogþrjármilljónir, skiptist á milli ríkisins og vinarins. Vinurinn græðir þrjátíuogeinamilljón.

Óreiðan: Svo er líka lagt til að stofnað verði nýtt styrktarfélag.
Beinagrindin: Í hvaða sambandi?
Óreiðan: SÍB. Styrktarfélag íslenskra einkabanka.
Beinagrindin: En hafa þeir ekki verið að guma af últra hagnaði árum saman?
Óreiðan: Það virðist allt vera froðusnakk.
Beinagrindin: Þrátt fyrir okurvexti og allt hitt?
Óreiðan: Spilaborgir.
Beinagrindin: Eins og þeir eru alltaf flottir og ánægðir með sig í sjóvarpinu.
Óreiðan: Það vantar ekki.
Beinagrindin: Og eigum við svo að bjarga þeim?
Óreiðan: Það stefnir í það.
Beinagrindin: Almenningur?
Óreiðan: Það leggst þannig í mig.
Beinagrindin: (Stynur) Ég fæ nú bara í beinin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.