Beinin í mér hafa tekið hug minn að mestu síðastliðnar vikur tvær. Þau hafa ekki átt hug minn, heldur hafa þau tekið hann. Rutt sér fram fyrir flest önnur viðfangsefni. Það er leiðinlegt. Efni bóka hefur ekki náð í gegnum óþolið.
Margt fréttist af styrjöldum. Ungi maðurinn, söguhetjan í bók Stephen´s Crane, Hið rauða tákn hugprýðinnar, er algengt dæmi um stríðsmann. Hann er alltaf skíthræddur. Órarnir í hausnum á honum sveiflast á milli hetju og skræfu. Sá sem er skíthræddur er sennilega alltaf við það að skíta í buxurnar af skelfingu. Áreiðanlega eru flestir skíthræddir sem berjast í fremstu víglínu í styrjöld. Þeir sem hanna og fyrirskipa styrjaldir koma sjaldnast nærri víglínum.
Það er ótrúlegt hvað víða geisa styrjaldir. Hvað víða valdamenn skipa óbreyttu fólki að fara og drepa annað fólk. Það er allstaðar verið að drepa fólk. Um víða veröld. Þannig er öll mannkynssagan. Lítil sem engin framför. Og maður veltir fyrir sér allri heimspekinni sem stunduð hefur verið í árhundruð. Hver er afurð hennar í þessu samhengi, Gísli, Eiríkur, Helgi?
Eins og heimspekingar eru virðulegir og ábúðarmiklir þegar þeir birtast og tala. Skyldi nokkur hlusta á þá nema í mesta lagi aðrir heimspekingar? Af hverju tekst þeim ekki að láta valdamenn hlusta? Það er af því að valdamenn vilja ekki hlusta á neitt tal nema það auki vald þeirra. „Að finna vald sitt aukast,“ svaraði Nietzsche sinni eigin spurningu: „Hvað er hamingja?“
En það eru ekki allir sammála um dýrð valdsins. Alan Paton segir í bók sinni, Grát ástkæra fósturmold, „…og óskaðu ekki eftir valdi yfir nokkrum manni, því að ég á vin, sem kenndi mér, að valdið spillir mönnum”. Samt held ég að Nietzsche hafi rétt um valdið. Það flokkast undir fíkn. Castro kom einræðisherra frá völdum fyrir tæpum fimmtíu árum og tók sér þau svo sjálfur. Hvað gerir Pútin þessar vikurnar, já, og Musharraf og Írak og Kína og Burma og, og, og.….!