Síðasti pistill 2007

Það verður með einföldu sniði kvöldið hjá okkur Ástu minni. Kvenbarnið borðar með okkur eins og undanfarin ár. Síðan fer það á vit félaga sinna og jafnaldra. Við gamla settið erum kvöldsvæf og hlökkum jafnan mest til þess að vakna snemma næsta dag. Það truflar samt nokkuð að fólk í nágrenninu sprengir bombur fram undir morgun. Það er fremur hvimleitt.

Aðalviðfangsefni mitt í dag er matur. Það verður þríréttað ef vel tekst til. Í fyrsta lagi verður humarsúpa. Aðalrétturinn er svartfugl í gráðaostasósu með tilheyrandi. Hvort tveggja afar vinsælt á heimilinu. Enda loks með eplaeftirrétti sem er nýjung. Valdi Golden Delicious epli.

Tek innan úr þeim að hluta og fylli með heimalöguðu sýrópi, rúsínum, pecan hnetum, kanelrönd og Calvados. Baka þau í ofni. Set klípu af ósöltuðu smjöri yfir sem bráðnar ofaní eplið og dulítið meira Calvados. Helli afganginum af sýrópinu úr steikarforminu yfir eplin um leið og þau eru borin fram og loks doppu af Crème Fraiche sem ég lagaði snemma í morgun og er í gerjun.

Fyrir morgundaginn hafði ég keypt nautalund í Bónus. Það eru nokkrar vikur síðan. Hún er frá Nýja Sjálandi. Síðustu daga hef ég tekið hana úr frystinum í smástund og spjallað við hana og spilað tónlist, ýmist Bach eða Beethoven og stundum James Last. Svo hef ég nuddað hana pínulítið. Þetta gerði ég daglega (Japanese Method). Fann ekki ráð til að koma í hana bjór.

Ég geri mér von um að nautalundin „mígi í munni“ eins og Akureyrarpresturinn, Svavar Alfreð Jónsson, orðaði það í svo ágætum pistli. Furðulegt hvað margir skömmuðu hann fyrir orðalagið. En nú fer eldhúsið að kalla. Þetta verður væntanlega síðasti pistillinn á árinu vegna anna það sem eftir lifir dags.

Þakka ég öllum vinveittum fyrir samskipti á árinu 2007.

Eitt andsvar við „Síðasti pistill 2007“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.