Í mínu umhverfi á unglingsárunum var sá andi ríkjandi að ungt fólk ætti að vinna fremur en að hanga í skóla. Vinna hafði verið keppikefli almennings um aldaskeið svo hann ætti fyrir mat öðru hvoru. Enda var sjaldnast atvinna í boði nema fyrir lítinn hluta vinnufærs fólks.
Og amma mín, Hreiðarsína, sem var alvöru krati, bæði af hugsjón og hjartans einlægni, af því að í hennar samtíma þekktust alvöru kratar, sagði stundum frá því að þeir einir hefðu fengið vinnu á daginn sem ynnu kauplaust í yfirvinnu. Og konurnar sem unnu í fiski urðu að pissa og gera aðrar þarfir sínar úti á stakkstæðunum hvernig sem viðraði. Í snjó og kulda á þorranum sem öðrum árstímum. „Vanhús var ekkert nema fjaran.“ (Fólk í fjötrum bls. 242).
Svo eftir stríðið og Bretavinnuna og allt það sem þeim fylgdi hélt atvinnuleysið áfram og stundum var búin til atvinnubótavinna og fólk fékk hana í skömmtum. Kannski viku í senn. Til dæmis, þá var ég í hópi slíkra við að moka snjó upp á vörubíla með skóflum, efst á Njarðargötu, í janúar 1952, þegar Sveinn Björnsson forseti lést. Þá var ég fimmtán ára.
Þetta kemur í hugann við lestur jólabókanna. Þegar Þorsteinn Gylfason, í Sál og mál, vitnar í heimspekingana sem hann lærði um og hjá í Oxford á sínum tíma, og reiknar með að lesendur sínir kannist við tilvitnanirnar, þá verð ég, einfaldur verkamaðurinn, að teygja mig upp í hillu og sækja Frumspeki Aristotelesar, þar sem svo er aftur vísað á inngang um hann í Siðfræði Níkomakkosar.
Svo les maður að Bertrand Russel hafi haft viðbjóð á siðfræði Aristotelesar og kemst þannig að því að Qohelet, eða hugsandi samtímamenn hans sem glímdu við að skilja tilveruna, hittu naglann á höfuðið þegar þeir skrifuðu. „…og ekkert er nýtt undir sólinni.“ Það er eins og allt fari í hring.
Þannig leiða bækur lesendur sína um spennandi heima hugsunar og leitunar í sögu kynslóðanna. Nýjar og gamlar uppgötvanir. Páll Skúlason spyr í bók sinni Í skjóli heimspekinnar: „Hvernig verða tengsl til og hvers konar tengsl eru til?“
Víst er eitthvað yndislegt við þessar pælingar. Bækurnar. Lesturinn. Og þessa glæsilegu höfunda. Góður félagsskapur. Vinátta. Það er enginn eyland með þeim „…því vinátta skerpir okkur til hugsana og athafna.“ segir Aristoteles, „…því þegar tveir verða samferða, sér einn öðrum betur hvað hagar…“ Hómer í Illíonskviðu og loks Qohelet: „betri eru tveir en einn…“
„Því að spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.“ (Qohelet 7:12)