Hver ræður næturstaðnum?

Rokið og rigningin hafði staðið yfir í 36 klukkustundir. Það er langur tími þegar beðið er eftir þægilegu útivinnuveðri. Og við flúðum heim. Sumardagurinn fyrsti hafði aftur á móti verið góður. Hann hjalaði við okkur af mildi, ólíkt mörgum nöfnum hans.

Og við klipptum niður alaskavíðirinn. Fyrst í stað greindi okkur á um hve neðarlega við skyldum klippa. Það stóð í fáeinar mínútur. Þá tók karlinn af skarið. Að verki loknu vorum við uppgefin og konan farin að hundskamma karlinn fyrir þrælahald og kúgun. Karlinn, lúmskur, friðþægði með því að kveikja á grillinu í fyrsta sinn á árinu. Vel við hæfi á sumardaginn fyrsta.

Ánægjulegt var að sjá skógarþröstinn okkar mæta á svæðið og setjast á grindverkið. Hann mætti einnig á sumardaginn fyrsta í fyrra. Hann var nokkuð úfinn og þreytulegur en þegar hann hafði snyrt sig dálítið heiðraði hann okkur með því að skíta tvisvar eða þrisvar á grindverkið og merkja sér svæðið.

throstur_1.jpg

Litlu síðar flaug fyrsti hrossagaukurinn yfir. Jagga jagga jagga, kvein í
honum og boðaði rigningu. Það rættist. Þegar veðrið, rok og rigning og aðeins þriggja stiga hiti, hafði staðið í 36 klukkustundir, ákváðum við á laugardagsmorgni að koma okkur heim í Kópavog. Ferðin gekk vel. Svo um hádegið, þegar við ætluðum að leggja okkur og hlusta á hádegisfréttir uppi í rúmi, þá snérist tilveran á haus og næstu sjö klukkustundirnar mátti ég liggja flatur eins og skata á bráðadeild Landspítalans, tengdur í ótal þræði og súr, eftir að hafa verið fluttur þangað á tveim sjúkrabílum. Minna dugði ekki.

merkimidi_bradadeild.jpg

En það var einstaklega þægileg tilfinning, í gærkvöldi, kominn heim, að geta klippt af úlnliðnum merkimiða bráðadeildarinnar fyrir svefninn, skriðið upp í sitt eigið rúm og hjúfrað sig einu sinni enn upp að elskunni sinni, þótt bæði séu komin yfir fertugt.

2 svör við “Hver ræður næturstaðnum?”

  1. Takk fyrir. Takk fyrir.
    Gott að fá smá hvatningu á svona dögum.
    Annars ,,lífga“ svona atvik upp á tilveruna.
    Haf þú það einnig sem allra best.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.