Einhver spurði hvort Guð hefði ekki hlegið þegar Nietzsche dó. Maður dregur þá ályktun að þeir sem tala svona viti harla lítið um ritningarnar og eðli þeirra. Hvergi hef ég rekist á það í ritningunum að Guð hafi hlegið, en þar segir aftur á móti frá ýmiskonar fólki sem hagaði sér kjánalega.
Guðspjall ber að Kristur hafi tárast. Og yfir hverju ætli hann hafi tárast? Svarið er; sorg og þjáningu annarra. Það er einmitt eðli ritninganna. Hvergi er dýpt þeirra meiri en þar sem sorg og þjáning steðja að fólki, konum og körlum og markmið hans eins klár, að hugga, græða og endurhæfa. Guði sé lof fyrir þann undramátt sem í Orði hans býr.
Þeir sem hafa guðsorð í flimtingum og eða ærslast með þau hafa væntanlega ekki eytt löngum tíma til að kynna sér þau. Flimtingar um hin ýmsu málefni eru og einkenni á þeim sem litla þekkingu hafa á málefnunum. Meta þau oftar eftir yfirborðinu og ösla um á grynningum og busla.
Líklegt er að Guð hafi harmað dauða Nietzsche, því að þrátt fyrir öflugan heila og kraftmikla hugsun er ekki að sjá að niðurstöður hans hafi náð til margra sem þörfnuðust meðlíðanar. Einar Benediktsson orðaði eðli þeirra mála með þessum alkunnu orðum: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“
Það er skírdagsmorgun. Við erum að búast í sveitina, hjónakornin. Ætlum að eiga þar kyrrðardaga og njóta nærveru hvors annars. Á morgun lesum við saman um píslarsöguna sem segir frá því þegar valdamenn og lærðir ákváðu að lífláta Jesúm frá Nasaret, sem þeim sýndist að ógnaði valdi þeirra og mjúkum klæðum. Þeir atburðir lýsa nokkuð valdinu, sem einmitt Nietzsche varð tíðrætt um og áleit að menn teldu til hinnar mestu hamingju, og svifust einskis til að verja.
Óska ég öllu fólki sem lítur við á heimasíðunni þessa daga, gleðilegra páska, gleðilegrar upprisu kærleikans, elskunnar, sem ekki verður aflífuð, þótt ótal menn reki nagla sína í hana á hverju ári. Elskan stendur af sér allar árásir og hæðni og spott, því að af öllum verðmætum mannsandans er „kærleikurinn mestur.“
Kæra Birna.
Setningin olli allsekki ónotum. Og það er alger óþarfi að hafa áhyggjur af því. Ég hef aftur á móti alltaf litið á það sem skemmtilega áskorun að fást við Nietzsche. Það er raunar ein af lífsnautnum mínum. Fannst því kærkomið tilefni til að taka hann með í páskahugleiðingar. Flyttu Baldri þínum þakklæti mitt fyrir þetta ágæta tækifæri.
Óska þér og börnum þínum gleðilegra páska.
Kær kveðja Óli Ág.
Þakka fyrir mig enn á ný. Óska ykkur gleðilegra páska og góðra stunda í sveitinni.
Mér þykir fyrir því Óli ef setningin hefur valdið ónotum. Ég get vel skilið það.
Elsku sonar-ómyndin :] hann Baldur minn sagði þetta uppúr eins manns hljóði um daginn. Mér, móður hans finnst hann auðvitað endalaust gáfaður og fyndinn.
Ég skipti setningunni út fyrir aðra eftir sama höfund.
„Hvað vilja þessar kellingar næst? Sömu laun fyrir sömu störf!?“
kv. birna