Afar ánægjulegu þrjátíu og fimm daga tímabili lauk í gær þegar sumarleyfi frúarinnar endaði og við ókum til „byggða“. Það var með talsverðum söknuði og litlum orðaskiptum á leiðinni, þótt úrhellisregn og mest við komuna inn í borgina væri nokkur huggun. Hugurinn dvelur svo við það í dag að komast að niðurstöðu um hvort hann eigi að vera þakklátur fyrir hamingjudagana í sveitinni eða ósáttur við að hafa þurft að yfirgefa hana!
Frúin fór í vinnu í morgun. Hún var glöð og sæl og heyrðist raula lagstúf. Enda á hún góða vinnufélaga og vini í þeim. Þetta er öðruvísi hjá okkur fauskunum sem settir hafa verið til hliðar vegna aldurs. Við upplifum einskonar „Hundrað ára einsemd“ svo vitnað sé í heimsfrægan bókatitill Gabríels Garcia Marquezar. Minnist og lögfræðings nokkurs sem nýlega hafði látið af störfum og gekk einn um sumarhúsahverfið þar sem átti annað af tveim sumarhúsum sínum. Hitt var í annarri sýslu.
Hann kom til mín þar sem ég var að bera hrossskít í grjótmel og tók mig tali. Mér heyrðist hann hnugginn og þóttist skilja tilfinningar hans og gerðist nærgöngull með spurningum. Varð niðurstaðan af samtali okkar sú að mestur væri, við starfslok, söknuðurinn yfir að missa félagsskap góðra vinnufélaga. Síðan hélt hann rólegri göngu sinni áfram, einn, með hendur fyrir aftan bak og horfði niður í stíginn.
Nú, jæja. Það var ekki ætlunin að kjökra í pistilinn. Ég hef svo sem verið að heilsa bókunum mínum í morgun, snerti margar þeirra og þakkað þeim fyrir að hafa talað inn i líf mitt í gegnum árin. Og glaðst yfir því að þær eru í hýbýlum mínum reiðubúnar að veita mér félagsskap hvenær sem ég þarfnast þeirra. Og ég þarfnast þeirra. Þær eru vinir mínir og stuðningsaðilar í baráttunni við sálarflækjurnar.
Hef nú tekið upp á því í sumar, til viðbótar við önnur áhugamál, að gerast hnýsinn um heim þeirra fugla sem byggja móana í umhverfi Litlatrés. Hef ég gert ýmsar tilraunir til að eignast góðan og um leið ódýran sjónauka, (það er ekki séð að slíkt sé hægt). Bað vini mína sem ferðast milli landa að skoða sig um í fríhöfnum ef þar væri þessi eða hinn sjónaukinn á boðstólum. Þetta hefur ekki tekist enn. Fann fyrir því í gærmorgun.
Var á leiðinni út í bíl til að aka úr sveitinni. Þá kvað við þetta skerandi hróp í lóunum. Auðvitað hef ég oft heyrt viðvörunaróp lóanna þegar ungarnir þeirra eru að brölta um ófleygir. En þetta skerandi óp í gærmorgun var angistarfyllra. Ég tók að skima um. Litlu síðar tók önnur lóa undir við þá fyrri. Skerandi viðvörunar og angistarhljóð. Aðrir fuglar, smærri, gáfu frá sér ýmsa smelli sem einnig voru nýir fyrir mér. Andrúmsloftið var magnþrungið. Og ekkert dirrindí.
Allt í einu kom ástæðan í ljós. Það var smyrill á svæðinu. Í árásarhug. Það hvein í honum. Hann setti sigtið á þúfutittling. Stakk sér. Hinn skaust upp. Smyrillinn á eftir. Sá litli steypti sér niður. Þetta var einvígi upp á líf og dauða. Litli fuglinn fór hátt upp í loftið og smyrillinn elti hann í stórum sveig. Sá litli stakk sér, smyrillinn einnig, og upp aftur. Hærra, hærra. Þetta gekk nokkra stund, svo hurfu þeir sjónum mínum. Upp, upp inn í órafjarlægð himinsins. Dapurlegt.
„Því fugl er fyrst og fremst hreyfing, himinninn er partur af fugli,
loftið og fuglinn er eitt; […]“
Atómstöðin. Halldór Kiljan Laxness.