Grátstafir á Íslandi

Til er allnokkuð af einlæglega trúuðu fólki sem ekki fellir sig við neina kirkjudeild. En að sætta sig ekki við kirkjudeild getur verið af ýmsum ástæðum. Oftar held ég að það hafi með presta eða forstöðumenn að gera sem og þau markmið sem þeir setja sér. Sumir þeirra hafa sérkennilegar hugmyndir.

Margt kom mér spánskt fyrir sjónir á fyrstu misserunum með hvítasunnumönnum. Það var fyrir liðlega fjörutíu árum. Minnist ég þess, t.d. hvað mér þótti sérkennilegt að sumir einstaklingar, sem greinilega töldu sig nákomnari Guði en aðrir meðlimir, gáfu fremur peninga til erlendra hjálparstofnana en íslenskra. Þannig voru til menn sem höfðu gerst fastir styrktaraðilar að stofnun Oral Roberts í Bandaríkjunum, fyrirtæki sem velti milljónum dala, aðrir að starfi Arils Edvardsen í Noregi, sem einnig velti milljónum, og fleiri sem ég man ekki lengur nöfnin á.

Stundum átti ég það til að gagnrýna þetta í samkomum og spurði hversvegna fólk styrkti ekki hjálparstarfsemi á Íslandi. Það var ekki gefið mikið fyrir orð mín. Enda væri ég lítt þroskaður og reynslulaus nýliði. Sem auðvitað var laukrétt. En með tímanum átti ég eftir að sjá eitt og annað sérkennilegt. Sumt sem kom mér á óvart og ég varð aldrei dús við. Í áranna rás komu svo með nýjum mönnum nýir siðir, nýr tónn og ný markmið með mismunandi tærum hljómi.

Þetta rifjast upp fyrir mér á þessum dögum þegar birtar eru fréttir af glæsilegum árangri samtaka sem beita sér fyrir björgun barna í Afríku. Það er stórkostlegt að heyra af þeim og eiga allir sem að þeim málum koma mikla virðingu skilda. En sú spurning hlýtur samt að sækja á, hversvegna þetta duglega og hæfileikaríka fólk sem að þessum störfum kemur, finnur ekki hjá sér köllun til að hrinda af stað virkri starfsemi á Íslandi, starfsemi fyrir glötuð íslensk börn. Þau eru fleiri en menn vilja vita. Og við heyrum grátstafi foreldranna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.