Þar sem mætast Ægisgarður og Suðurbugt, í Reykjavík, hefur verið komið fyrir bekk. Hann snýr að bátahöfninni. Þetta er þægilegur staður og oft margt að sjá. Helgi sat á bekknum þegar Hannes bar að. Hannes stansar og horfir á Helga sem situr hnípinn með hendur djúpt í vösum.
Hannes: Eru menn þungbúnir í dag?
Helgi: Já.
Hannes: Áhyggjur?
Helgi: Nei.
Hannes: Hvað þá?
Helgi: Sársauki.
Hannes: Ekki er það gott.
Helgi: Nei. Það er ekki gott.
Hannes: Vilja menn ræða málið?
Helgi: Það held ég varla.
Hannes: Er það svo slæmt?
Helgi: Já. Eiginlega.
Hannes: Snýst það um kerfið?
Helgi: Já. Kerfið. Það pínir og kvelur eldri borgara.
Hannes: Segðu mér frá.
Þeir sitja hlið við hlið félagarnir. Horfa á menn fara um borð í skakbát, setja mótor í gang og leysa festar. Báturinn mjakar sér frá bryggju og siglir mjúklega út úr höfninni. Eftir alllanga þögn hefst samtalið að nýju:
Hannes: Mér skildist nú á þér þarna fyrir kosningar að þú hefðir verið svo ánægður með kerfið þegar Steinunn Valdís hækkaði laun konunnar þinnar um tvo flokka.
Helgi: Já. Ég var það. Enda gaf konan mér útborgun í reiðhjólinu þá.
Hannes: Hvað hefur hlaupið í þig síðan?
Helgi: Tryggingarstofnun.
Hannes: Tryggingarstofnun?
Helgi: Já. Tryggingarstofnun.
Hannes: Hvað með hana?
Helgi: Þeir lækkuðu greiðslur til mín.
Hannes: Af hverju gerðu þeir það.
Helgi: Þeir kalla það tekjutengingu.
Hannes: Tekjutengingu?
Helgi: Já. Ef konan hækkar í launum þá lækka þeir greiðslur til mín.
Hannes: Er það virkilegt?
Helgi: Já. Það er sko virkilegt.
Hannes: Bévítans beinin.
Helgi: Já Það er sko rétt.
Annar bátur siglir út höfnina. Hvalaskoðunarskip leysir landfestar. Félagarnir fylgjast með. Þeir eru þungbúnir á svipinn. Sársaukasvipur er á andliti Helga. Eftir alllanga þögn andvarpar hann.
Helgi: Ég varð að skila reiðhjólinu.