Svo allt í einu, þessi elska

Við höfðum kviðið því í allt vor að hún mundi alls ekki birtast eftir þessa langvinnu stríðu kulda og þurrka og vorum eiginlega orðin úrkula vonar. Það setti að okkur hryggð yfir mögulegum örlögum þessarar smávöxnu elsku sem hafði glatt okkar undanfarin sumur með hreiðurgerð undir þakskegginu á Litlatré og snilldar töktum í loftfimleikum.

Skrifaði og um það pistil fyrr í ár. Sjá hér En svo, óvænt, var hún allt í einu komin og búin að gera sér hreiður og tekin til við loftfimleikana og guðaði á gluggana og skvettist um loftið. Þessi elska. Það er ákaflega ánægjulegt að fylgjast með henni í leik og í starfi. Það var svo í gær sem hún settist á einn stólpann í grindverkinu og heilsaði. Fann ég fyrir gleði í brjóstinu og spjallaði við hana á einhverskonar barnamáli.

Ég var svo heppinn að vera með litlu G3 við höndina og gat smellt af henni mynd. Hún er nú samt ekki ein af þeim sem hefur þolinmæði til sitja fyrir lengi í senn. En mér fannst hún eiga við mig erindi. Sýndist mér hún vera að kvarta yfir því hversu hræðilega lítið var af pöddum þetta vorið, flugurnar sæjust ekki vegna kuldans og margra daga rigninga. Suðvestan slagveður í marga daga á eftir norðaustan kulda og strekkingi sem stóð vikum saman.

Smellið á myndina. Þetta með pöddurnar er alveg rétt hjá henni. Það hafa eiginlega ekki verið neinar pöddur, svo furðulegt sem það nú er. Nema þessar stóru, hunangsflugur heita þær, í æsku kölluðum við þær randaflugur. Þær hafa svifið um svæðið í allt vor. Eru sumar þeirra svo stórar að maður undrast og fylgist með hraðferð þeirra yfir svæðið með aðdáun. Þær eru gæfar, góðar og ljúfar og gaman að fylgjast með þeim.

Þar sem við stóðum þarna, ég og erlan, og þóttumst vera að tala saman, kom ein slík hunangsfluga aðvífandi í þessum stóru sveigum sem er þeirra munstur. Það var of mikil freisting fyrir erlu. Hún þaut og greip fluguna með goggi sínum. Settist síðan með hana skammt frá, studdi öðrum fæti á hana og hélt henni niðri á meðan hún hlutaði hana i sundur og át bútana. Lífrænt og ferskt. !!! Veisluréttur, enda þjóðhátíð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.