Dauðar sálir

Þekkir þú Tsjitsjikov? Á nú varla von á því. En ég hef verið að endurlesa sumar af elskulegustu bókunum mínum frá fyrra lífi. Það er dálítið eins og að upplifa sokkabandsárin sín að nýju. Þá var oft svo stórkostlegt að vera til. Auðvitað verður blossinn aldrei eins skarpur á efri árunum, en sumt af dulúðinni vekur sömu viðbrögð. Þegar fregnir bárust af því á haustdögum að fjármagnseigendur og aðrir unnendur peninga, vildu gjarnan kaupa stærstu bújarðir landsins og bæta þeim í eignasafn sitt, þá ákvað ég að lesa bók Gogols, Dauðar sálir, einu sinni enn.

Það fylgdi fréttinni af áhuga fjármagnseigenda á bújörðum, að þeir vildu gjarnan leyfa bændunum að eiga heima áfram á jörðunum. Væntanlega ráða þá sem húskarla til að erfiða fyrir sig. Eini munurinn væri sá að nú ættu bændurnir ekki jarðirnar og yrðu háðir þeim launum sem eigendurnir mundu skammta þeim hverju sinni. En slík meðferð á vinnandi fólki virðist vera eitt aðalsportið hjá hinum ríku um þessar mundir.

Þess vegna kom Tsjitsjikov upp í huga minn, ljóslifandi og endurfæddur í íslenskum nútíma. Pavel Ivanovitsj Tsjitsjikov. Hann fann það út, í Rússlandi síns samtíma, eða fyrir svo sem hundrað og fimmtíu árum, að hægt var að kaupa „dauðar sálir.” En þá giltu þau lög í hinu mikla Rússlandi, að þeir bændur einir mættu framleiða brennivín sem áttu 50 sálir eða fleiri. „„Sálirnar” voru hinir ánauðugu nefndir, en það voru fullvaxnir, vinnufærir menn, konur og börn ekki talin með.”

Á tíu ára fresti komu embættismenn ríkisins heim á býlin og skráðu „sálirnar”. Bæði lifandi og dauðar og voru þær dauðu þá teknar af skrám. En á tíu árum létust að sjálfsögðu margir eins og gefur að skilja og voru því skráðir lifandi þar til embættismennirnir komu næst. Og Tsjitsjikov fékk þessa frábæru hugmynd, eins og fjármagnsunnendur einir fá, hann fór um sveitirnar og keypti allar „dauðar sálir” sem enn voru á skrá. Með því móti fékk hann réttindi til þess að framleiða eins mikið brennivín og hann vildi. En eins og á okkar tímum, þá hefur brennivínsiðnaður áreiðanlega gefið miklu meira í aðra hönd en landbúnaður.

Það er lærdómsríkt að lesa bók Gogols, Dauðar sálir, og kynnast hugmyndafræði og aðferðum einlægs áhugamanns um fjármagn og fjáröflun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.