Opinberir andskotar

Þau valda ævinlega uppnámi í kjarklitlu verkamannshjarta mínu, bréfin sem hið opinbera sendir mér. Ég fer strax í vörn og blóðþrýstingurinn hækkar. Við vorum svo lítilsigld verkamannabörnin á Grímsstaðaholtinu í gamla daga, að við bjuggumst einatt við því versta í öllum samskiptum við hið opinbera. Ástæðan væntanlega verið sú að tekjur nægðu aldrei fyrir þörfum heimilanna og því ýmis gjöld látin sitja á hakanum, í þeirri von að úr rættist seinna. Sem aldrei varð. Og orðalag og framkoma hins opinbera iðulega full af hroka og fjandskap.

Nema hvað. Í gær barst mér eitt svona bréf. Það er frá sýslumanninum í Kópavogi. Yfirskrift bréfsins er: Boðun vegna fjárnáms. Yður tilkynnist hér með að þennan dag í júní verður tekin fyrir á skrifstofu minni beiðni sýslumannsins í Kópavogi um fjárnám vegna skulda á opinberum gjöldum sbr. meðfylgjandi afrit af aðfararbeiðni. Og svo framv.

Hugsanirnar sem fara í gegnum hugann beinast allar að mér sjálfum. Hef ég gert eitthvað rangt? Hef ég misskilið eitthvað? Hvað gæti ég hafa gert rangt? Og síðan fer hugurinn yfir alla möguleika á því að mér hafi orðið á í messunni. Nú hef ég samt reynt af mætti, undanfarin ár, að skulda ekki neinum neitt. Nema þetta sem ritningarnar tala um, „að elska hver annan.” Þar er ég stórskuldugur eins og við Íbúðalánasjóð.

Í fárinu bað ég Ástu að sækja möppu ársins tvöþúsund og þrjú niður í kompu. Fletti sjálfur upp í heimabankanum. Ásta fann alla gíróseðlana sem höfðu verið sendir og úr heimabankanum gat ég prentað út kvittanir fyrir greiðslu á þeim öllum. Samkvæmt útprentun eru allar greiðslur afgreiddar fyrir 15. hvers mánaðar. Og ég skulda engin opinber gjöld. Engin. Heldur varð mér rórra við að hafa kvittanirnar í höndunum. Bíð samt, sem væntanlegur gerðarþoli, eftir fundinum með fulltrúa sýslumanns. Hef ákveðið að mæta og sjá hvernig málin skipast.

Og spyr í huganum: Hvað ætli gerist ef gert verður fjárnám hjá manni sem skuldar ekki neitt? Hverjum ætli beri skylda til að sýna fram á að maðurinn skuldi ekki neitt? Manntetrinu eða því opinbera? Skyldu þeir setja eignir mannsins á uppboð? Og hugsanlega selja þær? Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni.

Þeir fóstrarnir, Sókrates og Plató höfðu ákveðna skoðun á réttlæti. Skyldi hún eiga við í dag?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.