Undir áhrifum

Um helgina buðum við nokkrum vinum í mat. Það gerist æ sjaldnar. Í þessum hópi voru tvenn hjón ensk og kona frá Hollandi ásamt átta íslendingum. Þetta samsæti var nokkru eftir hádegi á virkum degi. Það er nú svo sem ekkert af þessum málsverði að segja utan það að ég kynnti mig sem kokk dagsins og lýsti aðalréttinum á minni frumstæðu ensku svo:

Ísl þýðing: „Fyrir skömmu var ég einn á ferð uppi í Borgarfirði í fallegri sveit. Varð mér á að horfa meira út um hliðarrúður en framrúðu. Allt í einu stökk svartskjöldóttur tuddi fyrir bílinn og lá lemstraður í götunni eftir. Ég var svo heppinn að hafa góðan vasahníf í bílnum og gerði að tuddanum. Við borðum hluta af honum í dag. Hope you enjoy.“

Lygasagan hrökk út úr mér óundirbúið, (vildi reyna að létta andrúmsloftið) og er hún undir áhrifum af frásögn af gæsadrápi í bókinni Rigning í nóvember eftir Auði Ólafsdóttur rithöfund. Bók hennar, Afleggjarinn, féll mér svo vel að ég ákvað að lesa þessa. Gef Afleggjaranum talsvert hærri einkunn.

Matseðillinn var annars svona: Nautagúllas rjómalagað. Frönsk kartöflumús með beikoni. Eplasalat með salthnetum, vínberjum og rjóma með sérríslettu. Eplaterta með töfraorði og ís. Kaffi í lokin.

Það gekk sorglega lítið af.

Það ætti ekki að saka nokkurn þótt ég bæti því við að þegar einn Bretinn, aldursforsetinn í hópnum, vildi fara að tuða um hvalveiðar Íslendinga, þá minnti ég hann á að íbúðin væri á sjöundu hæð. Það var opið út á svalir.

Og nú kveð ég í bili. Er á leið í sveitina með pallaefni á kerru. Þessi rigning er yndisleg. Gaman þegar svona blautar lægðir heimsækja okkur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.