Langt tilhlaup

Það var 23. janúar s.l. sem hér birtist pistill um höfuðverk og magnyl. Þá var gerð tilraun til að setja mynd inn á síðuna til að auka frásagnargildi textans. En tilraunin mistókst og menn fengu sér magnyl. Eitt og annað hefur drifið á daga pistlahöfunds síðan þetta var og meðal annars, og það langversta, var svæsin inflúensa sem herjaði eins og árás hryðjuverkamanna á öndunarfæri, lungu, barka, háls og nef.

Það er nú fyrir sig að fá inflúensu. Það er aftur á móti öllu verra þegar umsátri hennar ætlar ekki að ljúka. Sýklahernaðurinn hélt áfram og næsta árás var gerð á húsfreyju heimilisins, en hún hafði umgengist heltekinn makann með tvíræðum svip og haft á orði að konur væru ávalt hraustari og ómóttækilegri í svona málum. Svo þegar hún var farin að hósta og emja og stynja, eins og lungun ætluðu úr henni, þá kom vel í ljós hvað makinn er aumur, því hann fór að hósta með henni.

Við erum svona þessir litlu karlar. Rifjast upp fyrir mér atvik úr bernsku. Við bræðurnir vorum í einhverjum hasar með öðrum strákum á Holtinu. Sennilega Tomma og Sæma á sex. Hugsanlega einnig Ella gamm á tíu og einhverjum fleirum. Tommi tók eitthvað hart á bróður mínum Steindóri, sem var þá um það bil tíu ára og ég þá sjö, kverkataki svo að hann tók að blána. Og Steindór grenjaði og gerði allt til að losna. Þegar ég heyrði Steindór grenja og sá lífshættuna sem hann var í, fór ég að grenja með honum, greip svo lítinn stein og keyrði í hausinn á Tomma. Það verkaði á stundinni. Og blóðið fossaði úr hausnum. Og mikið svakalega hlupum við bræðurnir hratt heim. Það urðu einhverjir eftirmálar. Man að pabbi Tomma kom heim að tala við mömmu um atvikið.

Jæja. Þessi pistill átti nú að fjalla um misheppnaða myndsetningu á netið þann 23. janúar s.l.. Nú hefur Brynjólfur Ólason, búið í hendurnar á mér svo einfalt kerfi að hvaða asni sem er á að geta notað það. Og það er einmitt meiningin að prófa þetta núna. Myndin er tekin af svölunum á sjöundu hæð og sýnir útsýnið úr hornglugganum sem við Ásta drekkum morgunkaffið við á hverjum morgni. Og njótum útsýnisins og samverunnar og ræðum málin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.