STURLUN ll

STURLUN ll
„Við störfum í myrkri – við gerum hvað við getum – við gefum það sem við eigum […] Afgangurinn er sturlun listarinnar.“
Henry James: The Middle Years.


Hugur minn er svo fullur af gleði í dag. Helsta orsök þess eru kærir höfundar sem búa í hillunum mínum. Þetta eru svo flottir menn, djúpvitrir menn sem gleðja okkur litlu karlana á grynningunum. Þar sem við höfum buslað í svo mörg ár.
Fyrir mér varð í gær Fyrsta hugleiðing Descartes: Um það sem dregið verður í efa. Og þar segir hann: „Í dag, létti ég því af mér öllum áhyggjum, tryggði mér ákjósanlegt næði, er einn og út af fyrir mig, og hyggst snúa mér að því að rífa til grunna allar fyrri skoðanir mínar, í fyllstu alvöru og eins og mér sjálfum sýnist.“
Ég lagði frá mér bókina, tók setninguna inn í mig, tók bókina aftur og las setninguna, og lét hana líða um litla sæta heilabúið í mér um stund. Svo fann ég gleðina byrja að streyma. Þetta var svo notaleg gleði. Höfundur setningarinn, René Descartes, fæddur 1596, er því löngu, löngu látinn. Og samt ekki látinn, því hugsanir hans á bókum munu lifa og lifa með mannkyni.
Það gera líka Mósebækur Biblíunnar. Þær lifa og lifa. Sem og það sem Jóhannes Zebedeusson skrifaði um Jesúm Krist. Sú bók, eða spjall, mun lifa og lifa. En það er gaman fyrir gamlan verkamann að lesa hugleiðingar Descartes-ar. Láta hugleiðingar hans örva mann til að hugleiða. Kerfi okkar eru svo ólík. Hans kerfi er heimspeki, mitt kerfi er Jesútrú. Í hans kerfi er efi um alla hluti en í mínu kerfi er fullvissa.


Ég enda þetta í dag, þótt ég gæti skrifa tíu þúsund orð um efnið, og vitna í Qoheleth, sem margar góðar hugleiðingar eru kenndar við:
„Speki er eins góð og óðal, og ávinningur fyrir þá sem sólina líta. Því að spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.


Ver þú í góðu skapi á hinum góða degi, og hugleið þetta á hinum vonda degi: Guð hefir gert þennan alveg eins og hinn, til þess að maðurinn verði einskis vísari um það sem síðar kemur.“ Pd. 7.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.