FÁTÆKIR Í ANDA

Þegar ég las í þriðja sinn frásögnina af því þegar Pontícíanus, Afiríkumaðurinn, kom í heimsókn til Ágústínusar og tók að segja honum frá einsetumanninum Antóníusi, sem var nafntogaður maður meðal þjóna Guðs, kom í ljós að Ágústínus hafði aldrei heyrt hans getið, né heldur Alypínus félagi hans.

,,Antóníus þessi var egypskur einsetumaður, d. 356, 105 ára gamall. Einseta hans og meinlætalíf örvaði mjög þær heimsflótta og meinlætahugsjónir, sem ruddu sér til rúms í kirkjunni á 4. öld.“

Síðar segir frá tveim hirðmönnum keisara sem voru á göngu ásamt honum í görðum nokkrum nærri borgarmúrum. Einn gekk með keisaranum hinir tveir sér. Á göngu sinni rákust þessir félagar tveir á kofa einn. „Höfðust þar við einhverjir þjónar þínir, fátækir í anda,“ eins og segir á bókinni.

Þar fundu þeir bók er ævi Antóníusar var skrá á. Annar þeirra fór að lesa hana, varð hrifinn og upptendraður. Og við lesturinn tók hann að hugleiða að byrja slíkt líf, hafna heimslegri sýslan og þjóna Guði.

Og fylltur af heilögum kærleika og heilnæmri blygðun hvessti hann augun á vin sinn og sagði: „Segðu mér eitt: Hvers leitum við?“ Og án þess að orðlengja það tóku þeir ákvörðun á stundinni, höfnuðu ábyrgðarmiklum stöðum sínum við keisaraembættið og gerðust vinir Guðs þegar á þeirri stundu.

Þetta er mögnuð lesning. Og einsetumaðurinn og hinir „fátæku í anda“ eru sérlega eftirminnilegir og áhrif þeirra þá og síðar. Og nú. Antóníus þessi, meinlætamaður, minnir á hve vegir Guðs eru órannsakanlegir. Og hvað hinir „fátæku í anda“ eru ekki eins fátækir í anda eins og umheimurinn vill meina. Og gott er að mega flokkast með þeim.

Meginefni þessara skrifa er úr Játningum Ágústínusar, áttundu bók, 6 kafla.

Skrifað Guði til dýrðar.