,,Co thusa“

Það verða í mönnum ýmsar breytingar með hækkuðum aldri. Ein af þeim snýst um bækur.
Viturlegt er að hafa fá orð um þau mál enda verða þau meira og meira einkamál með hækkuðum aldrei. Kannski má segja að því sé líkt farið og með samneyti við annað fólk. Menn sækja meira í návist þeirra sem hafa líkt áhugasvið, eða smekk, bæði á lífinu og bókum og mönnum og málefnum. Orð Qohelet hinum forna verða æ meira afhjúpandi: ,,Aumasti hégómi. Allt er hégómi.“

Þessi hugsun hefur verið á sveimi inni í kollinum á mér síðustu misseri. Hef átt í baráttu um hvort ég ætti að viðurkenna þetta eða ekki. Fyrir sjálfum mér. Fyrir öðrum. Að sjálfsögðu kemur öðrum þetta ekki við. En samt er það svo að sálir sumra eru meira aðlaðandi en annarra. Og eins er um bækur. Þessi árin geri ég þær kröfur til bóka að þær grípi mig. Haldi mér við efnið. Helst að þær ríghaldi mér.

Það var ekki ætlunin að þessi vangavelta yrði margorð. Tilefnið er að ég var að ljúka við bókina Sakramentið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Og er þakklátur fyrir að hún hélt mér við efnið og veitti ánægju hvað eftir annað. Það liggja í henni leyniþræðir, leyniþræðir sem gleðja eða strjúka strengi í sálartetrinu sem erfitt er að koma orðum að. Og ég reyni það ekki.

Og enn eykst hamingja mín þegar ég hef lestur bóka Vilborgar Davíðsdóttur um Auði.
,,Tha cuimhne agam oirbh.“
,,Co thusa?“

Ég fæ ekki betur séð en að í hönd fari snjólétt sumar og að þrátt fyrir allt gildi ekki orð Qohelets um alla hluti: ,,…að allt væri eftirsókn eftir vindi.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.