Hver fer afsíðis einn

Ætlaði að taka Walt Whitman með mér en kom ekki auga á hann. Greip því Ljóðaþýðingar Yngva Jóhannessonar. Hún er þægleg, fer vel í vasa og vel í rúmi. Og þegar ég var lagstur og biðin hafin tók ég bókina og tók að lesa. Það var yndislegt. Þarna er hvert stórmennið á fætur öðru.
,,Gat nokkur lífið tekið réttum tökum?“ Þannig hefst sonnetta eftir Platen.

,,Á næstu síðu er Goethe: Og endurnæring veröld víð / mér veitir, nýjan þrótt: …“
,,Þú skalt rótfesta tré / láta rísa þitt verk, / að það lifi er kikna þín kné.“ Þannig hefst kvæði Piet Hein: Du skal plante et tre.
Og ég las aftur og lét orðin mótast inni í hausnum. Fletti svo áfram.
,,Byr náðar Hans / blæs dag og nótt / yfir höfði þínu.
Drag að húni segl / sálar þinnar /ef þú vilt sigla hraðbyri / yfir úthaf lífsins.“ Ramakrishna.

Nietzcshe samur við sig:
,,Já! Mín ætt er af þeim toga! / Aldrei mettan finn minn loga, / orka mín honum ofurseld.“
Og þannig fletti ég bókinni og á vinstri síðu eru ljóðin á frummálinu.
Maður tekur ljóðin inn í skömmtum. Leggur bókina á sængina og lygnir augum. Gleymir stund og stað. Tekur bókina aftur upp:
,,Híbýli tvenn í hjartaborg / hlið við hlið / hýsa gleði og sorg. „ Neumann.

Svo kemur Goethe aftur. Orðin hans á einhvern hátt mikilvægari en margra annarra:
,,Ég veit, mér ekkert öruggt má / ég eigna mér nema hugsun þá, / sem skýr í vitund vaknar,/
og hverja eina stutta stund, / er stígur gleðin á minn fund / og einskis önd mín saknar.“
Ég ætla að enda þessar hugleiðingar frá gærdeginum með Goethe:
,,….
Aber abseits, ver ists? „Yngvi þýðir :

,,Hver fer afsíðis einn
þar sem troðningur týnist í kjarri?
Bak við hann loka sér
lágvaxnir runnar
og lyftist gras á ný.
Hann hverfur í húmið.“

Æ, já. Ég stikla á stóru. Er svo þakklátur fyrir þessa menn sem snúa af öðrum tungum orðum til móðurmáls míns. Gæti haft um þetta mörg orð, en orð mín hafa svo lítið vægi við hlið ljóða skáldjöfranna.

Svo kom að mér og menn brýndu branda.
Og nú er ég hér.
Heima hjá frú Ástu.
Þar sem líf mitt er.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.