Grasekkillinn

Í nokkurra daga stöðu grasekkils í liðinni viku kom vel í ljós hvað bækur hafa mikið gildi. Já, bækur og lestur þeirra. Fyrsta morguninn þegar ég hafði notið þess að stripplast í íbúðinni og þreifa á einverunni og borða morgunmat fáklæddur, settist ég hjá bókunum mínum og tók að tala við þær.

Það er mjög blessandi að tala við bækurnar sínar, bæði höfunda og persónur. Af hvaða toga sem efni bókanna er. Eftir alllangt samtal við biblíubókmenntir, skáldsögur og ljóð hægðist á masinu í mér og ég seildist í nærliggjandi hillu og greip „Tveggja manna tal“ Róberts H. Haraldssonar, heimspekings, útg. HIB 2001.

Ritið er mér reyndar gamalkunnugt og allnokkuð er um undirstrikanir og það er eins og að hitta gamla vini að lesa undirstrikuðu línurnar. Hvað ég gerði mér til þægilegs ilms. Róbert skrifar m.a:

„Í Orðræðu um aðferð segir René Descartes að lestur allra góðra bóka sé sem viðræða við höfundana. Samkvæmt því eiga flestar þeirra greina sem hér birtast í samræðum við einhvern einn tiltekinn heimspeking, því þær byggjast gjarnan á lestri góðra rita, einkum frá þeirri merku öld nítjándu öldinni. Þar sem Descartes talar um góðar bækur mundi ég þó vilja tala um traustar, einlægar bækur, bækur sem hleypa manni sífellt nær og nær eftir því sem maður dvelur lengur með þeim. Bækur sem reynast góðir samræðufélagar….“

Það var einmitt setningin um góða samræðufélaga sem fékk mig til að staldra við og lesa aftur og þannig fann ég, verkamaðurinn, samsvörun og gladdist harla mjög. En það vöknuðu ýmsar spurningar hjá mér eins og vera ber. Svo sem: Hvað er góð bók? Hvað er traust bók og hvað er einlæg bók? Hvernig bækur hleypa manni nær og nær og hvernig bókum vill maður komast nær og nær?

Þessu er að sjálfsögðu ekki fljótsvarað. Ég er helst á því þó að bækurnar mínar hafi fundið mig og gert mig að vini sínum og líf mitt svo miklu, miklu betra við þá vináttu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.