Þetta var eitt af þessum opnu biðskýlum. Vindáttin stóð beint upp á, 15–16 metrar og úrhelli. Bílarnir sem óku hjá, flestir á verulegri ferð, jusu vatninu yfir gangstéttina og inn í skýlið. Þrjár manneskjur voru í skýlinu, væntanlega að bíða eftir strætó. Tveir karlar og ein kona.
Konan var ung, grönn og klædd í einhverskonar vindjakka með uppbrettan kraga og hafði á höfðinu prjónaða derhúfu og með derið ofani augum. Karlinn var í rykfrakka. Síðum. Frakka sem gjarnan voru kallaðir framsóknarfrakkar. Eða fimm flösku frakkar. Hann hélt honum að sér og talaði í sífellu. Við sjálfan sig eða vindinn eða Guð má vita hvað.
Þriðji maðurinn var einn af þeim sem lokar að sér innan um annað fólk. Með andliti og fasi. Og regngusurnar og stormurinn skóku biðskýlið til. Svo kom strætisvagn og stansaði með þessu loftpressu hvissi og seig niður og konan tók af stað en vindurinn feykti henni til hliðar. Vagninn fylgdi henni eftir og loks náði hún að grípa í handrið í vagninum og hífa sig upp í hann. Svo hurfu þau.
Karlinn í framsóknarfrakkanum talaði stöðugt. Öðru hvoru stakk hann hausnum út úr skýlinu eins og til að skima eftir vagni. Þriðji maðurinn var stöðugt innhverfur. Loks komu tveir vagnar í röð. Regnið virtist mjög mikið í ljósum vagnanna. Sá fyrri ók hjá án þess að stansa. Sá seinni stansaði, hvissaði og opnaði dyrnar. Tveir strákar skutluðu sér út og hurfu.
Málgefni maðurinn færði sig nær þriðja manninum og sagði: ,,Ég hlusta aldrei á Bjarna. Hvorki á sautjánda júní né nokkurn annan dag. Það er nefnilega ekkert að marka hann. Eins og alþjóð veit.“ Og með það stökk hann út úr biðskýlinu og inn í vagninn.
Þriðji maðurinn var ekki að bíða eftir strætó. Hann var einfaldlega á göngu og hafði áð í skýlinu. Nú lagði hann af stað á móti veðrinu, léttur í fasi og glaðlegur. Þetta var um kvöldmatarleyti á virkum degi.