Heimspeki verkamanns

Á síðustu dögum hef ég verið í félagsskap fjölmargra heimspekinga. Og siðfræðinga og guðfræðinga. Á bókum. Lesið um afrakstur lífs þeirra og menntunar. Auðvitað er þekking mín á þeim yfirborðsleg og í molum.

Verkamaður hefur ekki tækifæri til að lifa með klúbbum fræðimannanna,- ekki að læra tungutak þeirra, – ekki að hlusta á samdrykkjur þeirra, – ekki að fylgjast með líferni þeirra. Verkamaður lætur sér nægja að krækja í eina og eina bók á frídegi, bækur sem margar hverjar tipla á niðurstöðum spekinganna.

Flestir spekingar fullyrða að markmið hugsunar þeirra sé að leita að ,,hamingjuleið“ fyrir mannkyn. Fyrir samborgaranna. Víst er það göfugt markmið. Samt ber svo fáum þeirra saman. Allt frá dögum Þalesar hafa lærdómsmenn smíðað kenningar og svo hafa aðrir nýtt krafta sína til að rífa þær niður.

Sú þræta veldur gjarnan því að þegar verkamaður á frídag og notar hann til samfélags með bókum um niðurstöðu lærdómsmanns og eygir glætu og flettir um síðu, hrifinn, þá mætir hann á þeirri öðrum lærdómsmanni sem hrekur niðurstöðu hins. Og glætan hverfur.

Það er á slíkum dögum sem verkamaður finnur ánægju í því að mæta aftur í grjótnámið
hvar hann raular fyrir munni sér eins og líkkistusmiðurinn, frændi hans forn: ,,Mikið malar þú…“

2 svör við “Heimspeki verkamanns”

  1. Þakka þér Skúli fyrir vinsemd og gott boð.
    Verkamaður hefir velt fyrir sér möguleikum vikusálna sinna á að þekkjast boð þitt. Þeirra á milli hafa farið fram röndóttar samræður. Niðurstaða er ekki fengin. Verkamaður leitar að sjálfi,- innan um öll þau sjálf sem sveima um,- sem festi hönd á nægum kjarki til að mæta á fund viðurkenndra hugsuða.

  2. Sumir halda að heimspeki sé endalaus og að svarið komi ekki að leiðarlokum heldur liggi í ferðalaginu sjálfu. Ég vil leyfa mér að bjóða þér í Heimspekikaffihúsið. Maður í þessum hugleiðingum á erindi í þangað. Það er haldið einu sinni í viku. Á Facebook er hægt að kynnast því aðeins en best er að mæta. Hér er slóðin: https://www.facebook.com/groups/heimspekikaffihus/

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.