Og þá er svo gott að vera til

Það var um hádegi í dag. Við fórum í lítinn bíltúr hjónin. Áttum smá erindi. Veðrið var svo silkimjúkt. Það bókstaflega andaði yl inn í okkur. Og birtu.

Ókum sem leið liggur úr Kópavogi til Reykjavíkur. Veðrið var af þeirri gerð sem gerir lífið ánægjulegra. Það var meira að segja logn. Ferðamenn á Sæbraut og hópar við álskipið. Carmen á stóru skilti við Hörpu. Höfðum ákveðið stefnumót við Gunnbjörgu úti í Örfirisey. Ákváðum að skoða nýja Nettó verslun. Hún er víðáttumikil. Ráfuðum milli rekka. Ræddum við manninn í kjötborðinu.

Guðmundur afabarn kallaði til okkar. Var ásamt eiginkonu sinni Björgu að kaupa í matinn. Stúlkubarnið þeirra kelaði við ömmu Hrönn og afa Friðrik. Ánægjulegt að hitta þau. Gunnbjörg bauð í kaffi í Kaffi Retro. Eigendurnir voru að opna. Við settumst um það bil á stjórnborðslunningu björgunarbáts SVFÍ.

Þar fengum gulrótarkökusneið. Og þeyttan rjóma. Og kaffi ,,Amerikein“, eins og þau sögðu. Og síðan spjölluðum við þrjú. Ásta, Gunnbjörg og ég. Drykklanga stund. Þær mest. Það var svo margt sem lá konunum á hjarta. Elsku konurnar. Þegar út kom að loknu spjalli gekk ég spöl út á bryggjuna. Hafflöturinn var eins og spegill nema þar sem æður fiskaði.

,,Ég réri héðan eina vertíð,“ sagði ég, ,,á Kristbjörgu Re 79.“ ,,Þú varst nú aldrei sjómaður í þér,“ skaut Ásta að. ,,Veit ég það manna best, spúsa mín góð,“ sagði ég og svo kysstumst við öll og kvöddumst og við gamla mín ókum heim.

Þetta var svona dagur þegar borgin sýnir allt sitt besta og engir stjórnmálamenn að brjála tilveru manns með fánýtu argaþrasi. Og einskonar þakklætistilfinning fer um mann og maður finnur fyrir Guði. Og þá er svo gott að vera til.

Eitt andsvar við „Og þá er svo gott að vera til“

  1. Alltaf jafn gaman að lesa pistlana þína Óli minn. Kær kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.