Hross í oss

Sá kvikmyndina í gær. Margt afar fallegt. Hross, landslag og fólk. Hvítársíða í Borgarfirði, nánar tiltekið Krókurinn, í stóru hlutverki. Mjög kunnuglegt. Margar senur heillandi.

Ung kona með sjö til reiðar og Zimsen bústaðurinn í baksýn. Húsfreyja á svörtum gæðingi ríðandi tl móts við sveitunga í hávöxnu grasi. Hross, þessar göfugu, dásamlegu skepnur leika stærsta hlutverkið í myndinni. Færa mann til baka um fimmtíu ár þegar unglingur reið þessar sömu slóðir og minning um hross í oss hrífur hugann.

Það hringlar í mélum. Taktfast fótatak tölts og skeiðs hljómar eins og hljóðfæri. Graðhestur frýsar, sveiflar þrútnum spenntum skaufa og fyljar glæsihryssu á förnum vegi, hryssu, sem vel að merkja, knapi situr á. Átta mig ekki alveg á viðbrögðum knapans. Kannski fannst ,,kóngi um stund“ tign sinni og valdi misboðið.

Atriðið um spænsku mannskræfuna er tæpast sannfærandi. Og það má velta fyrir sér brennivínsleiðangri bóndans út í erlendan togara. En í heildina er myndin falleg og mörg atriði heillandi. Það er glæsibragur yfir sveitungunum þegar þeir safnast saman til að smala stóði af fjöllum, menn í hrossum og hross í mönnum.

Þá er við hæfi að gera húsfreyju að drottningu um stund í fallegum hvammi við árbakka: ,,Farðu úr buxunum,“ segir hún við valdalausan kónginn sinn og unaðarhróp þeirra ríma við köll smalanna sem knýja stóðið í átt til byggðar. Hefði viljað að atriðið í Þverárrétt væri lengra. Það er sérstök og ólýsanleg upplifun að draga hross í stóðréttum.

Læt eftir mér að segja þetta. Falleg kvikmynd og bráðskemmtileg. Takk fyrir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.