Kveðjuorð: Jónheiður Gunnarsdóttir

Í dag ( 14. september) verður jarðsungin heiðurskonan Jónheiður Gunnarsdóttir í Kirkjulækjarkoti. Hún er síðust þeirra átta „kotara“ til að hverfa á vit feðranna eftir langa lífsgöngu.

Þeirra átta, segi ég, en fyrir meira en sextíu árum kallaði Guð til fylgis við sig bændur og smiði í íslenskri sveit á íslenskum bóndabæ. Og eins og Nói á sínum tíma hlýddi kalli Guðs og synir hans og kona hans og sonakonur, hlýddu þau, átta sálir í Kirkjulækjarkoti, kallinu og stofnuðu samfélag um nafn Jesú Krists.

Í upphafi samanstóð litla hjörðin af foreldrunum, Guðna Markússyni og Ingigerði Guðjónsdóttur og sonum þeirra og eiginkonum sem voru: Guðni Guðnason og Jónheiður Gunnarsdóttir, Magnús Guðnason og Hrefna Magnúsdóttir, Grétar Markús Guðnason og Þóra Gunnarsdóttir.

Til varð þetta litla andlega trúfélag í Kirkjulækjarkoti, háheilagur dvalarstaður guðsorðs og heilags anda, þar sem frelsarinn Jesús frá Nasaret var í hávegum hafður og dýrkaður og tilbeðinn í látleysi og auðmýkt, af öllu hjarta, allri sálu, öllum huga og öllum mætti.

Knúin af kallinu reistu fjölskyldurnar sér lítið samkomuhús til bæna iðkunnar og samfélags við frelsara sinn. Komu saman og greindu ritningarnar, krupu við bekki og tilbáðu og lofsungu. Tóku mið af lærisveinum guðspjallanna. Ekkert glys. Enginn hégómi. Aðeins ákall: „Unnusti minn er minn og ég er hans.“

Þau byggðu trú sína á grundvallar ritningarstöðum; fyrir trú erum við réttlætt, eins og Abraham var réttlættur, fyrir trú. Og enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann endurfæðist – skírist fyrir vatn og anda,- og í eldi. Umskurn á hjarta – og sá sem trúir og verður skírður – mun hólpinn verða. Boðskapurinn var klár. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki,…“ Glatist ekki.

Þegar sundurkraminn gest, karl eða konu, bar að garði, breiddu heimamenn út faðma sína og umluktu komumann af einstakri mannelsku. Önduðu inn í hann lífi í krafti krossins á Golgata þar sem guðssonurinn gaf líf sitt mönnum til bjargar; „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthelt.“

Tungutak litlu hjarðarinnar í Kirkjulækjarkoti var mótað af biblíutextum og í daglegu lífi gætti þess mjög. Gestrisni og örlæti rómuð sem og orðræður í heimahúsum. Hver dagur hafinn með lestri ritningarorðs og bæn. Hver máltíð þökkuð. Og á góðum dögum „…birtust tungur eins og af eldi væru er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra.“

Í dag verður Jónheiður Gunnarsdóttir kvödd og borin til moldar, síðust af þeim átta sem hófu starfið í Kirkjulækjarkoti og helguðu líf sitt Kristi, ástunduðu sína trú og bænalíf á þann hátt sem varla á sér hliðstæðu í íslenskum nútíma.

Við heiðrum og blessum minningu Jónheiðar sem og hinna innvígðu vinanna sem nú hafa öll gengið á vit feðranna. Hinum fjölmörgu afkomendum þeirra vottum við hluttekningu við ástvinarmissi á þessum sögulegu tímamótum.
Með einlægu þakklæti og virðingu.

Óli Ágústsson, Ásta Jónsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.