Vald verður til þegar við vinnum saman

Innan um mikið magn léttmetis í dagblöðunum má oftast finna áhugaverðar greinar. Í morgun las ég viðtöl við tvær mætar konur. Í Fréttablaðinu við sr. Agnesi Sigurðardóttur, verðandi biskup. Í Fréttatímanum við Salvöru Nordal, forstöðumann Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Báðar fjalla konurnar um málefni sem brenna á fólki þessi misserin.

Ég leyfi mér að tilfæra setningar úr viðtölum beggja kvennanna. Setningar sem gefa fyrirheit um nýjan skilning, – eða öllu heldur, nýjar áherslur og nýja breytni í samfélagi þjóðar sem tæpast veit sitt rjúkandi ráð.

Í grein Agnesar er margt vel sagt og ígrundað þótt fáir dagar séu liðnir síðan hún var kosin til þessa vandasama embættis. Hún segir á einum stað:

„Við þurfum að leggja meiri áherslu á að koma því á framfæri að kristniboð er ekki bara tal og predikanir, eða boð um það hvernig þú átt að lifa lífi þínu nákvæmlega, heldur þarf að sýna það í verki. Og þegar fólk sér að verkin eru ekki í samræmi við orðin, þá minnkar traustið. Kannski var það einmitt það sem gerðist. […] Svo þurfum við að vanda okkur betur í því sem við gerum, segjum og hvernig við komum fram.“

Salvör Nordal segir:
„Hannah Arendt, einn merkasti stjórnmálaheimspekingur tuttugustu aldar, gerir greinarmun á valdi og afli. Að hennar mati verður vald til þegar við vinnum saman og ræðum saman, það er jafnframt kjarni mennsku okkar. Þegar við komum saman og leyfum hverjum og einum að njóta sín verður til eitthvað nýtt og jafnvel eitthvað óvænt. Vald í þessum skilningi verður til milli fólks og getur fætt af sér nýja möguleika. Aflið aftur á móti er einstaklingsins en er ekki afurð samstarfs og samræðu.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.