Glæsikerran á bílastæðinu

Þegar ég kom út úr versluninni þá var kominn þessi líka svakalega flotta drossía við hliðina á mínum bíl. Drossía, fólksbíll svo fallegur og flottur að ég gat ekki á mér setið að leggja hönd ofurvarlega toppinn á honum. Og andvarpaði. Svo hallaði ég mér niður að bílstjóra hurðinni og skoðaði mælaborðið í gegnum rúðuna. Og kramið maður. Þvílík fegurð.

Þessu næst gekk ég fram fyrir bílinn og sjá: Það á ekki að skoða hann fyrr en 2015. Það er einmitt á svona augnablikum sem hnjáliðirnir minna á sig. Almáttugur, sagði einhver kona í bók og jesúsaði sig, svo ég vitni í Laxness.

Nú snéri ég mér loks að gamla mínum. Það var dálítið þröngt á milli bílanna. Ekki von að fólk á svona glæsilegri rennireið sé endilega að taka tillit til gamalla jálka eins og gamlingjans míns. Skil ekki alveg af hverju eigandinn lagði svona við hliðina á mínum bíl, en þetta voru einu bílarnir á stæði fyrir 15 bíla.

Svo sagði ég o jæja og smellti hurðaopnaranum. En nú brá mér heldur betur í brún. Flotti bíllinn svaraði með pípi og takkarnir í hurðunum smullu upp. Ég skimaði allt í kringum mig. Skíthræddur. Sá engan mann. Og féll nú í þessa svakalegu freistni. Tók í húninn. Bíllinn var opinn. Aftur skimaði ég í kringum mig. Hvergi mann að sjá. Varfærnislega settist ég undir stýrið. Þurfti að stilla sætið. Sennilega konubíll. Úff. Lagði hendur á stýrið. Vá.

Hálf utan við mig og eins og af gömlum vana stakk ég bíllyklinum í svissinn. Og snéri. Og hvað heldurðu? Mótorinn fór í gang. Ég fann það þótt ekkert heyrðist. Og nú klikkaði eitthvað í hausnum á mér. Ég ákvað að prófa bílinn. Ók af stað. Það var ekki eins og maður æki, nei, maður nánast sveif. Þvílíkt undur. Sveif hljóðlaust eins og í svifflugu, – nema þetta eina, þetta með bensíngjöfina, – þegar ég snerti hana var eins og bíllinn stykki upp. Svakalegt.

Ég endaði svo ökuferðina og lagði vandlega. Fór út úr bílnum og smellti hurðaopnaranum. Læsingin hlýddi. Gamli bíllinn minn svarar líka vel. En það heyrist þegar hann er í gangi. Og hann stekkur ekkert upp í loftið þegar ég stíg á bensínið. En hann hefur alltaf komið mér á áfangstað. Í þessi tólf ár sem við höfum búið saman.

Kominn áleiðis upp í brekkurnar hérna í Kópavoginum hugsaði ég eins og meinfýsni refurinn í sögunni: ,,Hvað skyldi eigandinn skulda mikið í honum?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.