Liðin helgi var frábrugðin. Á laugardag sátum við fermingarveislu á Selfossi. Vorum snemma í því og ókum um bæinn. Bjuggum þar skamma hríð fyrir margt löngu. Þá voru bæjarmörk við Engjaveg. Mikil breyting hefur orðið þar á. Byggðin komin lengst suður í beitilönd bænda.
Fermingarveislan var ánægjuleg. Tveir armar ættmenna samankomnir. Eins og gengur. Góðmeti á borðum. Fermingardrengurinn spurður. „Var gott að fermast?“ „Ah, þröngt í hálsinn,“ sagði hann og krækti fingri inn fyrir þverslaufuna. „Annars allt í lagi,“ bætti hann svo við og brosti fallega. Eiríkur Eggertsson heitir hann. Er barnabarnabarn. Hefur unun af hestum.
Í gær var barn borið til skírnar í Háteigskirkju. Allmargt fólk viðstatt. Stundin falleg og presturinn vandvirkur. Tók vatn úr skírnarfonti og gerði krossmark á enni og brjóst barnsins. Svo las hann ritualið. Alltaf hnýt ég orðalagið. Í guðspjallinu segir: „Ég skíri yður með vatni til iðrunar…“ Elsku barnið. Til iðrunar? Það er svo margt á skjön í heimi mannanna.
Drengurinn fékk nafnið Bæringur Elís. Nafn afa síns í móðurætt. Fæddist tveim mánuðum fyrir tímann. Hefur barist hetjulega fyrir lífi sínu og haft sigur. Fallegur drengur. Guði falinn. Eftir athöfn var boðið til veislu í glæsilegum húsakynnum Háteigskirkju. Bæringur Elís er barnabarnabarn. Spáð var illviðri um land allt. Það bætti í vindinn fyrir utan
Fyrir athöfnina spjallaði ég við organistann. Við rifjuðum upp eitt og annað frá fyrri tíð. Áttum talsvert saman að sælda áður fyrr. Þá þjónaði hann í Selfosskirkju. Stundum vorum við tveir í kirkjunni þar og hann spilaði fyrir mig prelódíur og fúgur. Og Toccata adagio og fugu í C. Góðir dagar.
Nú er hann kominn á aldur. Eins og fleiri. „Sáttur?“ spurði ég. „Ég hef jarðað þúsund manns,“ sagði hann og skaut augunum til hliðar. Ég fann fyrir sömu væntumþykju til hans eins og fyrir fjörutíu árum.