Vesalingarnir. Söngleikur í þjóðleikhúsi.

Bókina eignaðist ég ungur. Útgáfu 1951. Hef lesið hana oft. Hún á sér fastan bústað í huga mínum. Þess vegna þurfti ég að setja mig í stellingar til að sjá söngleikinn. Við fórum í gærkvöldi. Hjónin. Til að sjá söngleik. Ekki söguna.

Til að byrja með var ég í vörn. Það var eins þegar ég sá Gerplu á sviði. Varð samt ánægður með Gerplu. Hún verkaði á mig eins og skemmtilegur úrdráttur úr bókinni. Í gærkvöldi, strax þegar tjaldið var dregið frá, heillaði sviðsmyndin mig. Hún er mögnuð. Og síðan tók hljómsveitin að spila. Og fólkið að syngja. Miklir listamenn. Hver öðrum flinkari. Aðdáunarverðir.

Tuttugu og átta listamenn á sviðinu og svo ótal stjórnendur í felum. Ég slakaði á. Og skemmti mér vel. Ásta var himinlifandi. Það var heilmikið verk að fylgjast með öllum atriðunum. Þau gengu hratt. Það var skemmtilegt. Byltingin og bardaginn á götunum voru ævintýri líkust. Mögnuð sviðsmynd. Og í raun var heildarmyndin glæsileg.

Aðalmennirnir, Jean Valjean og Javert, sungnir af frábærum söngvurum, Þór Breiðfjörð og Agli Ólafssyni. Féllu samt ekki að myndinni af þeim í huga mínum. Það gerði gáskinn ekki heldur. En salurinn fagnaði honum. Laddi, sjálfum sér líkur, minnti á: „Austurstræti, ys og læti…” og mikið var klappað. Þetta er söngleikur. Bráðskemmtilegur söngleikur. Af bestu gerð. Listamennirnir hver öðrum stórkostlegri.

Það er auðvitað ekkert sérlega snjallt fyrir óbreyttan að fjalla um leikhúsverk. Hverju hann hefur ekkert vit á. En með hliðsjón af tilfinningunni fyrir bókinni saknaði ég dýpri sársauka og angistar hins hundelta flóttamanns Jean Valjean sem og örlögum verkakonunnar Fantine, sem smámenni krömdu til dauða. Um hana segir í bókinni:

„Fantína var ein af þessum verum sem sprottnar eru upp í hjartafylgsnum lýðsins. Hún átti uppruna sinn í botnlausustu djúpum þjóðfélagslegs myrkurs og bar á sér mark hins nafnlausa og óþekkta.“

En eins og ég sagði. Þetta er jú söngleikur. Skemmtun. Í lokin stóð salurinn upp og fagnaði ákaflega.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.