Minning: Ingibjörg Brynjólfsdóttir frá Hlöðutúni

Einstök kona hefur kvatt. Ljós hefur slokknað. Og ylur þess hverfur. Vissulega var hún einstök. Æviganga hennar var fágæt. Vekur margvíslegar hugsanir þegar horft er til baka.

Hún var alltaf glaðleg. Alltaf hlý. Alltaf æðrulaus. Lét öðrum í té umhyggju sína og krafta. Ætlaðist aldrei til neins fyrir sig sjálfa. Þannig var hún. Lífsviðhorf og framganga einstök. Hljóðlega gekk hún um. Gegnum lífið. Hvernig sem aðstæður voru. ,,Góður göngumaður þyrlar ekki upp ryki.“ Sagði Lao Tze. Heimspeki. Og maður hugsar: Hvað er heimspeki? Er það glíma við að smíða kenningar um hlutskipti manna og lífstilgang? Og eða að etja kenningum saman. Um aldaraðir. Allt frá því Þales datt í brunninn. Og maður hugsar: Hvað er kristindómur? Margir hafa hann á vörunum. Minna í athöfnum. Ingibjörg lifði hann. Hógvær og lítillát. Lífsferill hennar sagði: Elska skaltu náungann meira en sjálfan þig. Það var einmitt þannig sem hún lifði. Allt sitt líf. Og spekin réttlætist af börnum sínum.

Ásta á ljúfar minningar frá Hlöðutúni. Hún rifjar þær oft upp. Talar um hlýjuna sem hún naut þar. Hjá afa og ömmu og Imbu föðursystur. Hlýjuna sem einkenndi heimilislífið þar. Hún segir frá því þegar Ingibjörg settist við orgelið í stofunni. Þá var hátíð. Uppáhaldslag hennar var eftir Stephen C. Foster. Þekkt undir íslenska textanum „Húmar að kveldi, hljóðnar dagsins ys,…“ Höfundur Jón frá Ljárskógum. Börn hændust að henni. Öll börn. Vildu vera hjá henni. Sofa hjá henni. Njóta ylsins af nærveru hennar. Vöxnu fólki leið vel í návist hennar.

Og þannig reyndist hún alla ævina. Gefandi af sér, velvild og umhyggju. Hún krafðist aldrei neins fyrir sjálfa sig. Ég tilfæri hér orð sem sr. Ólafur Oddur heitinn, bróðir Ástu, skrifaði þegar Ingibjörg varð áttræð:

„Ingibjörg fæddist í Hlöðutúni í Borgarfirði 30. maí árið 1916. Þar ólst hún upp og vann bústörfin framan af ævi ásamt foreldrum sínum og bróður. Hún hugsaði einstaklega vel um aldraða foreldra sína Brynjólf Guðbrandsson bónda, og Jónínu Guðrúnu Jónsdóttur. […] Síðan lá leiðin til Reykjavíkur og þar hélt hún áfram að gefa af sér og vera öðrum hjálparhella. Ég ætla ekki að rekja alla þá sögu hér. Margir hafa notið umhyggju hennar á uppvaxtarárum og við ástvinamissi. Hún hefur tekist á við röð áfalla í fjölskyldu sambýlismanns síns, Leifs Steinarssonar, með hljóðlátri reisn. Ingibjörgu er gefið mikið þrek og hún kann öðrum betur að taka mótlæti. Í áföllum lífsins verður allt svo tilgangslaust, en kærleiksrík samskipti við aðra létta byrðar og eru í rauninni leiðin til Guðs.“

Ingibjörg Brynjólfsdóttir lést 29. febrúar. Síðust systkinanna sjö frá Hlöðutúni. Hún var níutíu og fimm ára gömul. Í dag kveðjum við hana með þakklæti og virðingu. Útförin fer fram frá Laugarneskirkju og hefst athöfnin klukkan 13:00.

Óli Ágústsson og Ásta Jónsdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.