Þetta var á skrifstofu opinberrar stofnunar. Rýmið var án skilrúma. Sjö konur sátu hver við sitt skrifborð. Tölvuskjár var á öllum skrifborðunum. Fingur léku um lyklaborð. Allar höfðu þær síma í öðru eyranu. Sumar töluðu af ákefð. Símadama svaraði hringingum og deildi á þjónustufulltrúana. Það var kliður í salnum. Tónlist í útvarpi. Þáttur um gömul rokklög.
Fullorðinn maður kom inn. Hikandi skimaði hann um, óviss hvert hann ætti að snúa sér. Hann var klæddur í kuldaúlpu, hafði trefil um hálsinn og húfu á höfðinu. Hallaði svolítið fram. Niðursokknar konurnar litu ekki upp. Maðurinn stóð þarna skammt fyrir innan dyrnar og beið þess að einhver veitti honum athygli.
Eftir nokkra hríð gekk hann að borði sem stóð við vegg skammt frá inngöngudyrunum. Á borðinu var kaffivél og pappírsmál og G-mjólk í litlum fernum. Einnig útvarpið. Þulurinn afkynnti glaðhlakkalegur síðasta lag: „See yoy later alligator, After while crocodile,“ og bætti við ,,alltaf góður Bill Haley, en næstur á dagskránni er svarti presturinn Little Richard með Tutti Frutti, Kýlum á það.“
Komumaður, sem ekki hafði enn náð athygli kvennanna, rétti úr bakinu. Tók af sér húfuna og trefilinn og klæddi sig úr kuldaúlpunni. Lagði fötin á borðið. Hækkaði síðan í útvarpinu svo að glumdi um skrifstofuna og tók að dansa æðisgenginn rokkdans.
„A-Wop-bop-a-loo-lop a-lop-bam-boo
Tutti Frutti, all over rootie,…..
A-wop-bop-a-loo-lop a-lop bam boo.“
Little Richard þandi böndin:
„I got a gal, named Sue,
She knows just what to do. …..
I’ve been to the east, I’vebeen to the west, but
she’s the gal
That I love the best.“
Maðurinn lifði sig inn í tónlistina. Dansaði trylltan dans eins og unglingur yfirhlaðinn hormónum. Sumar konurnar stóðu upp og horfðu í undrun á manninn. Aðrar sátu og störðu á hann með opinn munn. Þegar laginu lauk og þulurinn tók að hrósa Little Richard og tala um gömlu góðu dagana, lækkaði maðurinn í útvarpinu og klæddi sig í úlpuna.
Ein skrifstofukvennanna gekk til hans hikandi og hvíslaði: „Get ég aðstoðað?“ Maðurinn, sem var dálítið móðu, hvíslaði á móti: ,,Er ekki sótt um ellistyrk hér?“
Frábært hjá þér!