Loks áræddi ég að ávarpa manninn II

Eftir að við höfðum horft hvor á annan um hríð, ég sá ekki merki þess að hann þekkti mig, áræddi ég að ávarpa hann: Heitir þú ekki Óskar? Hann hikaði smávegis. Sagði svo: Jú, það er víst.

Manstu nokkuð eftir mér? spurði ég.
Það held ég ekki, sagði hann, finnst ég kannist við svipinn. Held ég.
Við unnum saman, sagði ég.
Nú já. Hvar var það? spurði hann, áhugalítill.
Í fjöllunum.
Já. Já. Einmitt það. Það er nú langt síðan það var.
Já, það er langt síðan.

Þeir voru ekki góðir við mig þegar ég hætti, sagði Óskar.
Voru þeir það ekki?
Þegar ég var kominn á aldur, löggildur, þá var ég látinn fara.
En þú vildir vera áfram.
Já. Ég vildi það. Bað um að fá að vera áfram. En þeir sögðu nei. Ég vildi bara fá að vera, sópa og taka til og vera innan um kallana. En þeir sögðu nei.
Sögðu þeir nei? spurði ég.
Já.

Ég ætlaði ekkert að vera á launum, vildi bara fá að vera og spjalla um vinnuna og daginn og veginn og hella á kaffi og sópa og taka til. En þeir sögðu nei.
Þú hefur horft í félagsskapinn?
Já. Ég gerði það. Það er ekki svo gott að vera allt í einu settur af og bannað að koma innan um félagana.

Það var nokkur erill á biðstofunni. Fólk kom og gaf sig fram við konur á bak við gler. Tók sér sæti. Börn léku við kubba. Læknar kom og kölluðu upp nöfn. Viðkomandi svaraði með jái og þá sögðu læknarnir gjörðu svo vel og vísuðu fólki til læknastofu.

Óskar hagræddi stólnum sem hann sat á og skipti um stellingu. Snéri sér að mér og horfði í augun í mér nokkra stund eins og hann væri að leita að orðum. Sagði svo og horfði yfir gleraugun: Ég margbað þá. Þeir sögðu alltaf nei.

Kallarnir voru vinir mínir. Við höfðum unnið saman í mörg ár. Sumir. Það er ekkert skemmtilegt að vera allt í einu settur af og bannað að hitta félagana. En yfirmennirnir sögðu nei. Alltaf nei.
Þetta hefur verið erfiður tími, sagði ég og reyndi að setja samúð í röddina.
Óskar þagði við. Horfði yfir biðstofuna. Hallaði sér í átt til mín og sagði: Þeir sögðu alltaf nei. Ég hafði unnið hjá þeim í tuttugu ár.

Nú var nafnið mitt kallað upp. Ungur læknir vísaði mér inn í stofuna sína. Við ræddum í tuttugu mínútur. Þegar ég kom fram sat Óskar enn á stólnum og hallaði sér fram á göngustafinn.

Situr þú hér enn, spurði ég og rétti honum hönd til að kveðja hann.
Enn, sagði hann, já, já, ég kem oft tveim tímum fyrir bókaðan tíma.
Mér finnst gott að vera innan um fólk.

Eitt andsvar við „Loks áræddi ég að ávarpa manninn II“

  1. Yfirmenn eru oft einkennilega innrættir og setja reglur ofar öllu öðru. Sennilega eru þeir hræddir við að nærvera mannsins skapi fordæmi eða skyldur! Þetta virkar hins vegr oft sem hreinræktuð illgirni og „mannvonska“!

    Kveðja,

    Ragnar Eiríksson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.