Loks áræddi ég að ávarpa manninn

Síðustu þrjár vikur hafa verið mér svo örlátar. Langt umfram aðrar. Er þar fyrst og fremst frábærum félagsskap að þakka. Félagsskap sem meðal annars samanstendur af Jóni, Jóni og einum Jóni til.

Einnig eru þar lögmenn, sýslumenn, prestar, biskup og að sjálfsögðu þeirra geistlegar ektakvinnur. Þá íslenskir bændur flestra gerða, útlendir mangarar og maður sem heitir Árni.

En ríkjandi eru áhrif telpukindar sem átti ekki svefnsamt, sá ekki glaðan dag og hjúfraði sig eitt kvöld upp að gamla hjúinu með táknræna nafnið sem spurði, hvað er að barnið gott. Og telpukindin svaraði:
„Það er maður.
Hver er það, sagði hún.
Það er fullorðinn maður sem kemur mér ekkert við, og ég þekki hann ekki. Ég er líklega galin.
Guð komi til, sagði gamla konan.“ En hún bætti við eftir fleiri játningar kindarinnar:
„Vertu ekki hrædd barnið gott, það er ástin.“

Það er magnað að endurlesa úrvalsbækur. Bækur sem frá fyrsta lestri gerðust förunautar manns. Urðu hluti af tilverunni með persónum og tilvitnunum. Ég lauk við Íslandsklukkuna fyrsta sumardag. Í þriðja sinn. Hélt aftur af mér síðustu dagana og treindi síðustu kaflanna. Og nýt vængjanna.

Það er eins og bókin vaxi, víkki og dýpki, með viðbættri lífsreynslu lesanda. Atriði sem áður hvöttu til umræðu krefja nú um hljóð og íhygli. Þögn.

Þögn? segir þú og spyrð kannski hvað ég sé þá að þvæla þetta. Ja, ég er nú bara að reyna auðsýna þakklæti mitt fyrir afburða bók eftir afburða rithöfund og lýsa hamingju minni. Það er allt og sumt.

En þar fyrir utan, þá bar það til einn daginn að ég hitti Óskar. Það var á biðstofu í læknamiðstöð. Óskar var breyttur. Hann sat þarna í víðri úlpu, fráhnepptri og í ullarpeysu innanundir. Hann var í buxum með of stuttar skálmar og hvítum ullarsokkum í gúmmískóm. Studdi sig við göngustaf. Honum varð starsýnt á mig og mér á hann. Loks áræddi ég að ávarpa hann.

En þetta er að sjálfsögðu efni í annan pistil.

Eitt andsvar við „Loks áræddi ég að ávarpa manninn“

  1. Hugljúft í morgunsárið. Ég hef aldrei lesið Íslandsklukkuna..Þarf að huga að því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.