Jesús litli, Styrmir og fjósin og heimspeki

Aldrei hef ég heyrt furðulegra tal um frásögn guðspjallanna af aðdraganda og fæðingu frelsarans en það sem birtist í viðtali í sjónvarpi í vikunni. Viðtalið var við aðalleikarana í leikritinu Jesús litli. Vissulega er mörg umræðan í fjölmiðlum um þessi mál sérkennileg og kjánalegt að vera að undra sig á þeim. Stundum rúma færri orð meiri dýpt en fleiri.

Styrmir Gunnarsson skrifar ágæta grein um fjós og rekstrarvandamál þeirra í Sunnudags Moggann. Í seinni hluta greinarinnar víkur hann að mögulegu næsta skrefi í hagræðingu í landbúnaði með betri nýtingu nútímalegra fjósa. Fyrir um sextíu árum prédikaði Gunnar Bjarnason, ráðunautur og kennari á Hvanneyri, einmitt þennan boðskap.

Gunnar var framúrstefnumaður. Hann komst á flug þegar hann útlistaði fyrir nemendum sínum hvernig bændur gætu haft eitt stórt sameignarfjós í sveitum. Það myndi spara fjárfestingar í húsum, í vélum, tækjum og vinnu. Síðan sendi hann hóp nemenda út í fjós og lét þá smíða grindabotn í nokkra bása til að sýna fram á meiri þrifnað, aukna vellíðan kúnna og þar með aukna nyt.

Gunnar hélt þó, eins og Styrmir nú, að íslenskir bændur gætu átt erfitt með að koma sér saman. Það vandamál blasti við fyrir sextíu árum og blasir við enn. Vonandi tekst bændum að taka hagsýnina fram fyrir hamlandi tilfinningamál.

Heimur hugmyndanna. Undanfarna sunnudagsmorgna hafa þeir mætt í útvarpi, Rás 1, Ævar Kjartansson og Páll Skúlason, klukkan liðlega níu, og fengið til sín hæfustu spekinga þjóðarinnar til ræða hin ýmsu mál menningar og fræða í ljósi heimspeki. Þessum afburðaþáttum ætti engin að missa af.

Umræða um mannvit og visku gerist ekki vandaðri og betri. Þættirnir eru endurfluttir á mánudagskvöldum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.