Aflsmunur

Þegar konan hans var búin að lesa forsíðu blaðsins sem hékk uppi við kassann, benti hún á mynd á forsíðunni og spurði manninn sem með henni var: „Er þetta ekki hún Jóna, Jóna hans Bjarna hennar Siggu?“ Maðurinn leit ekki upp. Hann var önnum kafinn við að setja vörur í poka og poka í innkaupakerru.

Þegar ekki komst meira í kerruna sótti hann aðra og hún varð einnig yfirfull. Svo skutlaði hann greiðslukorti í kassastúlkuna sem sagði: „Fjörutíu og sjö þúsund og tvö hundruð.“Hann tók að mjaka kerrunum í átt að útgöngudyrunum. Kom aftur að kassanum og kvittaði. „Viltu afritið?“ spurði stúlkan á kassanum. „Uss nei.“ Svaraði maðurinn.

Þessu næst tók hann tvo fulla innkaupapoka sem ekki höfðu komist í kerrurnar og tók að mjaka kerrunum út um dyrnar. Konan hans var komin út að bíl, svörtum glansandi Benz jeppa, og opnaði hurð. Hún hélt hurðinni opinni meðan maðurinn færði innkaupapokana inn í bílinn.

„Þetta var áreiðanlega hún Jóna hans Bjarna,“ sagi konan stundarhátt og bætti við: „Þú verður að koma með seinni kerruna hinu megin.“

Ég fór dálítið hjá mér þegar ég gekk fram hjá þessum glæsilegu manneskjum þar sem ég var aðeins með tvö epli í glæru pokaræksni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.