Á pósthúsinu

-Sæll og blessaður, kallaði pakkaafgreiðslumaðurinn yfir öxlina á stúlkunni sem afgreiddi mig. Hún fyllti út skýrslu um innihald pakkans sem ég var að pósta til systur minnar í Texas. Ég var einmitt að hrósa stúlkunni fyrir fallega rithönd.

Ég heilsaði manninum. Fannst hann samt trufla mig. En hann var glaðhlakkalegur. -Langt síðan við höfum sést,- hélt hann áfram. Nú var ég að reyna að segja stúlkunni hvað innihald pakkans var. – Xmas gifts, Home made candy. Bush setti reglur um það eftir Tvíburaturnana. Pakkamaðurinn lét sig ekki.

Nú töluðu þau við mig bæði í einu. Það er óþægilegt. Ég snéri mér að manninum. –Þú ert enn með alskegg,- sagði ég. –Já, Það vex nú bara þarna, sagði hann og bætti við – Hafið þið það gott hjónin? -Mjög gott, svaraði ég. –Og frúin líka? bætti hann við í spurnartón. –Ég hef það betra en hún, svaraði ég. Hann leit framan í mig og sagði, -Nú? –Já. Ég bý með henni.

Póstkostnaðurinn var svipað hár og verðmæti innihalds pakkans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.