Tvær íslenskar konur á sextugsaldri fóru í helgarferð til kaupmannahafnar nýlega. Markmiðið var að aftengjast daglegum erli og störfum hér heima, skoða í verslanir og hafa huggulegar kvöldstundir.
Eitt kvöldið ákváðu þær að borða góðan mat á veitingastað í grennd við Hvids vinstue. Allt fór fram með miklum ágætum í mat og drykk. Þegar líða tók á máltíðina vék sér að þeim karlmaður á miðjum aldri og spurði hvort hann mætti tylla sér hjá þeim. Það var samþykkt.
Sagðist maðurinn vera Færeyingur og mikill vinur Íslendinga. Í raun væru þeir hans fólk og líkt væri farið flestum löndum hans. Sat hann og spjallaði við stöllurnar dágóða stund af hinni mestu kurteisi og alúð. Stóð loks upp og hvarf til síns föruneytis.
Þegar okkar konur höfðu notið alls þess góðmetis sem þær pöntuðu og tími kominn til að rölta heim á hótel báðu þær um reikninginn. Kom þá sá Færeyski aðvífandi og bað um, af fyllstu kurteisi, að fá að borga reikninginn og sýna þannig velvild sína til Íslendinga. Síðan kvaddi hann þær með virktum.
Glaðar í bragði yfirgáfu konurnar síðan veitingahúsið, undrandi en kátar yfir þessari óvæntu færeysku vinsemd.