Oft var ég svo innilega sammála þeim Styrmi og Matthíasi. Málflutningur þeirra féll oft að skoðunum mínum og þá líkaði mér svo vel við Moggann. Þannig var þetta um áratuga skeið.
Ég spurði konuna sem ber Moggann út í hverfið hvort pokinn hennar hefði lést við ritstjóraskiptin á blaðinu. Þetta er bráðdugleg kona sem að jafnaði skilar blaðinu um hálf sjö. Stöku sinnum hittumst við og ég þakka henni ævinlega fyrir blaðið og hrósa henni. Hún sagði að þeir á blaðinu hefðu boðið áskrifendum sem sögðu því upp, kynningaráskrift til mánaðamóta. Því hefði hennar poki ekki lést.
Svo leit hún framan í mig og spurði: „Hefur þú sagt því upp?“ Og ég svaraði henni eins og var og sagði að ég hefði lesið Morgunblaðið frá því að ég var tólf ára og verið áskrifandi svo til jafnlengi. Þá brá einskonar brosi fyrir á vörum hennar.
Samt hef ég einu sinni sagt upp dagblaði fullur andúðar. Það var Þjóðviljinn og Svavar Gestsson var ritstjóri. Það eru mörg ár síðan.
Þessar vikurnar spyr ég mig að því hvort nýi Mogginn sé á leiðinni frá mér eins og Sjálfstæðisflokkurinn fór frá mér, þrátt fyrir samleið í meira en hálfa öld. Það þætti mér sorglegt eftir öll þessi ár.
Sú tilfinning vex nefnilega með mér að þeir hagsmunir sem nýi Mogginn ber fyrir brjósti séu ekki þeir hagsmunir sem muni gagnast þjóðarheildinni best, heldur séu þar á bak við sömu öflin og færðu hana þangað þar sem hún nú svamlar um í örvæntingu. Því miður.
Hér finnst mér að þú talir fyrir munn okkar margra.