Í gærkvöldi lofaði ég mér því að forðast að gjóa huganum, næstu daga, í áttina að stjórnmálum. En hugurinn á það til að vera taumskakkur og leita til hliðar frá ákveðinni stefnu. Ætlunin var að reyna fremur að dvelja við efni sem hugsanlega hýrgar sálina. En hvar skyldi slíkt efni vera að finna?
Svo í morgun. Nýr dagur. Maður tekur þátt fyrir sjö, þótt engin viðfangsefni bíði. Þá nýtt kaffi. Þynnra þetta árið. Og blöðin. Syndsamlega þunn í morgun. Mogginn. Það gerðist eitthvað skrýtið inni í mér þegar ég tók hann úr póstkassanum. Skyldi hann enda sem fjórblöðungur? Og Fréttablaðið? Er að undra þótt gamlir karlar verði þungir á brún?
Ef ekki væri hún Ásta mín, eiginkona í fimmtíu ár, þá væri nú fátt til að lifa fyrir. Ég segi það satt. Og gæti haft mörg orð þar um. En það vill hún ekki. Svo les hún í svipinn á mér og þegar hún sér stöðuna, segir hún blíðlega: „Við skulum renna í sveitina um næstu helgi. Elda saltkjöt og baunir á bóndadag og setja saman skápinn sem við keyptum um jólin.“
Það var eins og við manninn mælt. Brúnirnar lyftust og við tókum að þvaðra um vorið, um hríslurnar, áætlun um bakkaplöntur og niðinn í Hvítá. Sólskinsdaga á pallinum og grillið með öllum sínum möguleikum.
Mófuglana sem koma frá meginlandinu. Skyldi maríuerluparið koma eitt sumarið enn? Eða þrösturinn? Og lóan þykjast vera vængbrotin til að draga athygli frá ungunum sínum.
Ég segi það satt. Ef ekki væri hún Ásta mín, þá væri nú fátt til að lifa fyrir.
Jæja. Vonleysið væri nú samt ekkert ef ekki hefði einhverntíma verið von. Mikið óskaplega eru þessar fuglamyndir fallegar og hugsa sér hvað þær glöddu mig á annars viðsjárverðum tímum. : -) Sjáumst í saltkjöti kæri vinur.
Ég þekki þig ekki Óli en mikið er ég sammála þér. Það var eiginlega fyrst í morgun sem vonleysið náði á mér tökum. Það var þyngra en orðum tekur að opna vefmiðlana, sem þrátt fyrir ágæta spretti tala í tómarúmi. Allt er eins, ekkert breytist. Vinnudagurinn verður sífellt lengur að líða.
Ég horfi skilningsvana á stjórnarflokkana og þeir horfa skilningsvana á mig.
Mikið vona ég að vorið komi snemma ár. Við eigum það inni.