Með kosningar til alþingis í huga

Ef einhver dugur væri í ráðherraliði ríkisstjórnarinnar og einlægur vilji til að gera þjóðinni gott, – þá á ég við þjóðinni allri, ekki bara útvöldum vinum ráðmannanna – þá hæfu þeir niðurskurðinn í eigin ranni, alþingi og ríkisstjórn. Þar ætti að vera hægt um vik.

Það væri sannfærandi um góðan vilja ráðamanna og huggun fyrir aðþrengda þjóð að sjá skorið niður þar sem peningum er eytt í óþarfa. Og byrja á alþingi. Í pistlinum, Dauðar sálir á alþingi, frá því í haust eru þessar tillögur settar fram og leyfi ég mér að endurbirta þær hér:

„… Þess vegna kemur mér í hug að nú þyrfti að taka til í kerfinu og vel við hæfi að hefja lagfæringar þar sem rót hins mikla vanda var getin. Í fyrsta lagi ætti að afnema eftirlaunalögin nú þegar. Þau eru þingheimi til skammar. Í öðru lagi að segja upp öllum aðstoðarmönnum alþingismanna, það getur varla verið brýn þörf fyrir þá nú.

Og í þriðja lagi væri upplagt að fækka alþingismönnum um 30 og mætti gera þá að aðstoðarmönnum hinna sem eftir sitja, út uppsagnarfrestinn. Með þessu mundu sparast miklar fjárhæðir sem nota mætti í raunverulegar þarfir þjóðarinnar.“

Það verður fróðlegt að fylgjast með því sem gerist á landsfundum stjórnmálaflokkanna í janúar og rýna í niðurstöðurnar. Með kosningar til alþingis í huga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.