Að gleðjast yfir og með vinum III

Eins og ég sagði í pistlinum í gær þá voru ánægjulegustu tíðindin í liðinni viku af Maríuerlunni. Allt í einu var hún komin á pallinn eftir talsvert hlé og með ungabörnin sín með sér.

Það tók okkur nokkra stund að átta okkur á fjölskyldunni. En þegar við höfðum horft á ungana nokkra stund, hlaupa um pallinn og eftir grindverkinu, í býtið á sjötta tímanum og veiða lífrænar flugur í svanginn þá þóttumst við skilja að einstæða foreldrið hefði fundið sér maka og lífið haldið áfram.

Við upplifðum gleði yfir tryggðinni og vinsemdinni sem Erlan sýndi okkur. Fyrstu morgnana kom hún með ungunum, svona eins og til að koma þeim upp á lag með pallana og þá stóð hún á grindverkinu og horfði á þá og hvatti.

Einn morguninn gat ég ekki betur séð en að Erlan stansaði á grindverkinu framan við húsið og segði okkur að hún hefði fundið maka sem hefði verið til í stofna með henni heimili og fjölskyldu. Hefði samt ekki fellt sig við að búa í hreiðrinu undir þakskegginu á Litlatré þar sem andi þeirrar fyrrverandi væri í hverju strái.

Þetta skildum við. Höfum heyrt ýmsar sögur af eldra fólki sem hafði svipaða reynslu. Ein var minnisstæðust. Hún var af manni, liðlega sextugum. Konan hans varð bráðkvödd í hjónarúminu. Maðurinn bankaði fljótlega upp á hjá vinkonu sinni frá æskuárum, konu sem aldrei hafði verið við karlmann kennd. Og hann bað hennar.

Hún tók honum. En þegar hann fór fram á að hún flytti inn í íbúðina hans og svæfi í hjónarúmi fyrri konunnar og sömu rúmfötunum þá tapaði nýgifta konan gleði sinni og fann hana aldrei aftur. Það var sorgarsaga.

Þess vegna horfðum við með ástúð á Erluna okkar og ungana hennar og sögðum henni að hún væri yndisleg að heimsækja okkur með börnin sín. Og þá flaug hún einn hring í kringum Litlatré og hvarf svo, að okkur sýndist í timburstafla nágrannans. Þar er aldrei nokkur maður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.