Og láta hjartað slá fyrir báða

Mál Pauls Ramses hefur verið fyrirferðamikið í fjölmiðlum síðustu vikur. Það hefur verið sérkennilegt að fylgjast með því staddur uppi í sveit, utan við ysinn. Nokkur fjöldi fólks hefur haft sig í frammi af afli og krafist þess að maðurinn fái landvistarleyfi á Íslandi.

Ekki hef ég neitt á móti flóttamönnum. Er raunar hrifinn af móttöku þeirra til landsins. En mér er annara um íslendinga. Finnst þeir eigi að standa okkur jafn nærri. Talsverður hópur íslendinga á öllum aldri býr við afar aum kjör. Félagslega og afkomulega. Ekki heyrist oft af fólki sem hefur sig í frammi af afli og krefst þess að kjör þeirra séu bætt.

Kannski er auðveldara að hrópa fyrir útlending. Það krefst varla meira en góðra raddbanda. Þá eru og líkur á fjölmiðlanærveru. Spennandi. Svo eftir hrópsamkomu og fimm hundruð kall getur fólk farið heim og brosað í spegilinn, kinkað kolli og sagt: „Gott hjá þér,“ og horfið til sjálfsins.

Ánægjulegt væri að heyra af fólki, hópi, hópum, aflmiklu fólki sem tæki sig saman og gerði að baráttumáli sínu að hrífa íslensk ungmenni og aðra sem misst hafa eða eru að missa tökin í baráttunni við öflin sem engu eira fyrr en dauðinn kremur þau. Og engjast á ystu nöf.

Það er varla minni ávinningur að bjarga íslenskum manni úr dauðagildru en kenískum. Og láta hjartað slá fyrir báða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.