Það rignir. Dásamlegt

Liðin vika næstum óbærileg vegna veðurblíðu. Heiðskírt, logn og hiti allt að 21 °C. Dag eftir dag eftir dag. Drukkum morgunkaffið á austurpallinum. Eldsnemma. Síðdegiskaffið einnig. Þá naut forsælu þar.

Okkur varð lítið úr verki þessa daga. Að heita má. Það var eins og sálin í okkur skrælnaði með bakkaplöntunum. Það var helst að við stæðum með slöngu og vökvuðum þær. En við lukum bókunum sem við tókum með. Mér fannst betra að lesa inni.

Svo tók að rigna í nótt. Það var svo yndislegt. Og það rigndi í morgun. Það var enn yndislegra. Ég er ekki frá því að gróðurinn hafi andvarpað af unaði. Og við snérum andlitunum upp í regnið. Um hádegi skruppum heim. Hún til að setja í þvottavél. Ég til að hnoða í brauð. Svo förum við upp eftir aftur. Á morgun eða hinn. Vona að það rigni duglega. Við endurnýjum í bókatöskunni.

Ánægjulegustu gleðitíðindin eru þó af Maríuerlunni. Sagði frá henni hér. Segi meira af henni síðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.