Helgi og Hannes – leyndarmálið

Hannes var sestur á bekkinn áður en Helga bar að. Hann var í gömlum rykfrakka með hneppt upp í háls og kragann brettan upp. Þá hafði hann belti um sig miðjan og gúmmístígvél á fótunum. Á höfðinu var gulur hattur, sérkennilegur og band bundið undir hökuna. Úrhellisrigning hafði verið daginn áður, en nú voru hrinur af suðvestri með snjó- og slyddublönduðum skúrum og sá til sólar á milli. Hannes sat með hendur djúpt grafnar í frakkavasana og horfði norður yfir höfnina. Helgi skoðaði útganginn á Hannesi, rannsakandi augum. Sagði síðan:

Helgi: Er von á óveðri?
Hannes: Hvað áttu við?
Helgi: Þú ert þannig klæddur.
Hannes: Það var nú slagveður í gær.
Helgi: Það er rétt. En hann er skárri í dag, eða hvað?
Hannes: Það er engu að treysta.

Helgi: Ég var farinn að halda að eitthvað hefði komið fyrir þig.
Hannes: Nú?
Helgi: Það er svo langt síðan þú hefur mætt.
Hannes: Langt síðan?
Helgi: Já. Síðan síðast.
Hannes: Vikur kannski.
Helgi: Vikur? Á annan mánuð maður.
Hannes: Það hafa verið annir.
Helgi: Var ekki allt í lagi samt?
Hannes: Tvær hliðar á því.
Helgi: Nú?
Hannes: Já.

Helgi: Er það leyndarmál?
Hannes: Svo sem ekki.
Helgi: En hvað?
Hannes: Ég fór bara á smá námskeið.
Helgi: Fórstu á námskeið. Í hverju?
Hannes: Tölvu.
Helgi: Fórstu á námskeið í tölvu?
Hannes: Já. Er eitthvað merkilegt við það?
Helgi: Nei, alls ekki. Alls ekki. Gekk vel?
Hannes: Já, já. Þangað til ég kom heim með tölvuna.
Helgi: Hvað þá?

Sterk vindhviða þeytti rigningu framan í félagana. Alllöng þögn fylgdi á eftir. Hannes hnipraði sig saman og hagræddi bandinu á hattinum undir hökunni.

Hannes: Þetta var ferðatölva.
Helgi: Ferðatölva. Flott tölva?
Hannes: Hún var innifalin í námskeiðinu.
Helgi: Er það ekki snjallt?
Hannes: Þá er afsláttur.
Helgi: Já, auðvitað. Hvernig gekk svo þegar heim kom?
Hannes: Ekki alveg nógu vel.
Helgi: Hvað olli?
Hannes: Það kom alltaf eitthvert Error.
Helgi: Error?
Hannes: Það er ekki von að þú skiljir það.
Helgi: Nei, það er nú rétt. Fannstu svo út úr Errorinu, eða hvað það nú heitir?
Hannes: Ég fór aftur á námskeiðið.
Helgi: Aftur?
Hannes: Já. Fékk það á hálfvirði.
Helgi: Og aðra tölvu kannski?
Hannes: Nei.
Helgi: Og hvernig gekk?
Hannes: Ég gaf frænku minni hana einn daginn.
Helgi: Gafstu hana?
Hannes: Já.
Helgi: Af hverju?
Hannes: Bara.
Helgi: Og ertu þá laus við Errorið?
Hannes: Nei. Ekki alveg.
Helgi: Hvernig þá?
Hannes: Það er þegar ég ætla að fara að sofa…
Helgi: Hvað þá?
Hannes: Þá kemur það. Alltaf þegar ég loka augunum.

Eitt andsvar við „Helgi og Hannes – leyndarmálið“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.