Hefði orðið draugabær

Það verkar svo þægilega á mig að lesa um breytingarnar á Austfjörðum. Einhver undarleg gleðitilfinning fer um sálina og ég stend mig að því að lesa greinarnar með einskonar brosi sem vex eftir því sem líður á lesturinn. Nýtt kraftmikið atvinnulíf er hafið. Næg atvinna, góð afkoma og allsherjarbreyting á högum fólksins. Fólksins. Það er aðalmálið í huga mínum. Afkoma fólksins.

Morgunblaðið í dag sýnir lesendum sínum inn í þessa nýju tilveru. Það er spennandi lesning, verulega spennandi og ekki síst fyrir þá sem hafa upplifað ámóta breytingu á högum sínum. Viðmælendur blaðamannanna Péturs Blöndal og Ragnheiðar Sverrisdóttur tjá sig djarflega. Athyglisverð eru orð Láru Björnsdóttur, hún segir:

„…í kringum aldamótin hafi apóteki og verslunum verið lokað og fólk flutt í burtu.“ Og hún heldur áfram: „Skipin voru farin, Snæfuglinn seldur, frystihúsinu var lokað og í raun var engin heilsugæsla á tímabili, af því að það var enginn læknir – við urðum að sækja þá þjónustu til Eskifjarðar. Þetta fór hægt og hljótt, hvert af öðru.“

Á Höfn í Hornafirði eru störfin að hverfa. Fólk þaðan fékk vinnu við álverið. Og ung kona segir: „Hérna eru nær eingöngu Austfirðingar. Þetta skilar sér í störfum til heimamanna, eins og ætlunin var.“ Og úr eldhúsinu, stærsta mötuneyti á landinu, koma tíðindi sem segja frá kræsilegum máltíðum, en, eins og allir starfandi menn eru sammála um, þá eru máltíðir á vinnustöðum ævinlega hátíð hvers dags.

„Við vorum með kjúklingalæri í matinn á laugardag og þurftum 1½ tonn. […] Þar við bætist svo grænmetið, kartöflurnar og hundrað lítrar af sósu.“ Þetta sagði innkaupastjóri starfsmannabúðanna. Og aukaávöxtur af öllum þessum umsvifum eru hin ýmsu fyrirtæki sem sett verða á laggirnar, þjónusta sem hér á suðvesturhorninu hefur verið talin sjálfsögð um áratugaskeið og margir íbúar hér halda að vaxi á trjánum.

Ég leyfi mér að samfagna Austfirðingum, einlæglega, óska þeim til hamingju með breytta afkomu. Þakka Morgunblaðinu fyrir greinina í blaðinu í dag. Þetta hefur verið ánægjuleg lesning.

Lýk pistlinum með orðum áður nefndrar Láru Björnsdóttur: „Það geta ekki allir verið listamenn og lifað á fjallagrösum.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.