Hví græturðu, barn?

Mogginn í morgun birtir myndir af tveim málverkum af grátandi börnum. Það er á blaðsíðu 70 í grein sem segir af listum. Auðvitað eru mismunandi orsakir sem valda því að börn gráta. Já, eða fólk almennt. Í morgun upplifði ég nýja orsök fyrir gráti.

Við fórum saman niður í Smáralind um hádegisbilið, hjónin. Erindið var að kaupa nýja teflon pönnu, en ein af þeim gömlu er eiginlega ónýt og hefur verið um hríð. Þar sem ég hef verið matráðskona heimilisins í tuttugu ár hefur það verið í mínum verkahring að velja áhöld til eldamennskunnar og hef ég haft af því allverulega ánægju. Auðvitað afrekað það stundum að kaupa hluti sem ekkert gagn gerðu.

Nú fórum við semsagt niður í Smáralind og í verslunina Ormsson. Gengum við þar í nokkra hringi og skoðuðum þessi býsn af allskyns dóti, mörgu sem kemur eldamennsku ekkert við. Loks kom þar að ég stansaði við vegginn þar sem pönnur hanga í röð og reglu. Fjasaði ég nokkra hríð um uppgefin mál á pönnunum, mál sem ekki stemmdu við þær tölur sem ég mældi með málbandinu mínu, um þvermál hitaflatar á botni og þvermál efribrúnar.

Afgreiðslustúlka sem ég hóaði í sagði eintóma vitleysu um ástæðurnar fyrir mismuninum og það var svo sem allt í lagi. Það er svo fjölbreytt starfsfólk í verslunum um helgar að það hvarflar ekki að manni að reikna með skynsamlegu svari við einföldustu spurningum. Eftir mitt persónubundna jaml og fuður ákvað ég að slá til og kaupa pönnu, þótt ég væri í vafa með þvermálin sem mundu ekki passa við lokin sem ég átti heima.

Þegar ég svo greiddi við kassa og hafði fengið eldri borgara afslátt og pannan komin i poka, tók Ásta mjúklega um annan handlegginn á mér og sagði: „Keyptu tvær, aðra fyrir Litlatré. Pannan þar er gamalt ræksni og þetta er ekkert verð.“ Alltaf þegar Ásta segir svona framkvæmi ég boð hennar án þess að hugsa, rétt eins og elsku Týrus sálugi hlýddi alltaf umyrðalaust þegar hann fékk skipunina, sit.

Það var svo ekki fyrr en í bílnum á leiðinni heim að ég sá að ég hafði eytt helmingi meira en ég hafði ætlað, en áætlun um fjárfestingargetu mína mótast alfarið af lélegum kjörum eldri borgara í þessu blessaða landi auðs og allsnægta. Þegar við komum heim sagði ég Ástu, með gagnrýnandi tóni, að hún hefði sennilega komið mér í fjárhagslegan vanda. Rétt eina ferðina enn. En Ásta er ekki eldri borgari og svaraði mér eldhress: „Ég skal gefa þér fimm þúsund kall, Óli minn.“

Það var þá sem ég fór inn í bókaherbergi mitt og lokaði að mér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.