Í tilefni dagsins

Í tilefni dagsins fékk ég mér göngu um miðbæ Reykjavíkur. Hóf ferðina um tíuleytið. Árdegis. Veðrið var blítt. Umvafði sál og huga. Vék mér að útlendum hjónum á horni Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs. Þau grúfðu sig yfir kort af Reykjavík. „Are you lost?” spurði ég. Þau tóku mér vel. Börnin þeirra, unglingar, fylgdust með. Þau ætluðu í Ráðhúsið. Sjálfur fór ég í hraðbanka Spron.

Næsti áfangi var Mál og menning á Laugavegi. Hún hefur verið hluti af lífi mínu í fimmtíu ár. Tók við af Bókabúð Snæbjarnar í Hafnarstræti. Veggirnir, hlaðnir bókum hinna margvíslegu höfunda, brostu við mér. Sumir höfundanna eru miklir vinir í gegnum árin. Menn sem vöktu lestrarunað. Höfðu áhrif á lífsviðhorf. Eitt sinn bað ég Magnús Torfa, sem þá var verslunarstjóri í búðinni, að panta fyrir mig Matthew Henry´s Commentary, í sex bindum. Síðan eru fjörutíu ár liðin. Þá hafði trúin á Jesúm Krist yfirtekið huga minn. Og ótal spurningar vaknað við lestur ritninganna. Spurningar sem leiðbeinendur mínir áttu ekki svör við. Enda er sagt að einn asni geti spurt sjö vitringa á gat. Og bækurnar fékk ég. Þær hjálpuðu mér aftur og aftur og komu mér á spor. Guði sé lof fyrir góðar bækur.

Ég var eini viðskiptavinurinn í versluninni þennan morgunn. Ferðamennirnir, sem venjulega fylla búðina, voru farnir. Það var eins á götum borgarinnar. Þær voru auðar. Kom mjög á óvart. Þetta var eins og haustdagur í sveitinni. Þegar farfuglarnir hafa yfirgefið móana. Ein og ein lóa söng þó lengur en aðrar. Svo hvarf hún einnig. Og móarnir hljóðnuðu. Þegar ég gekk niður Bankastræti mætti ég aðeins tveim eða þrem Íslendingum.

Eins var þetta í Austurstræti. Ekkert af fólki. Það var aldrei þannig í gamla daga. Þá iðaði Lækjartorg af fólki. Strætisvögnum og fólki. Ys og þys. Þegar við bræðurnir höfðum elt verkstjórana á eyrinni klukkan sjö á morgnana, í von um að fá vinnu, og fengum ekki, þá fórum við inn í miðbæ. Þar var fullt af fólki. Lífi. Nú er eins og þetta allt fari utan við miðbæinn. Ég held að arkitektarnir hafi drepið þetta. Lagt einskonar líkblæju á andlit miðbæjarins.

Í tilefni dagsins fór í Ráðhúsið og skoðaði sýningu Jóhanns G. Á leið yfir að Iðnó hitti ég fullorðna konu sem var að gefa fuglunum brauðmola. Hún skipti brauðinu. Fleygði öðrum hlutanum í vatnið, lét hinn helminginn á stéttina. „Annars hirða stóru fuglarnir það allt,” sagði konan. Í framhaldi hugsaði ég um þjóðfélagið okkar. Og stóru fuglana sem hirða allt. Og lofaði Guð fyrir fólk sem tekur tillit til minni fuglanna.

Á leið minni upp Bankastræti aftur rifjaði ég upp öll þau stóru og miklu verkföll sem mín kynslóð var látin taka þátt í. Ég man ekki eftir neinu verkfalli sem bætti hag okkar. Áður en við höfðum unnið upp launatapið sem hlaust af einu verkfallinu var annað skollið á. Og verðbólgan eyddi ábatanum. Við vorum aldrei spurð, þessi sem áttum fyrir átta manna fjölskyldum að sjá.

Já. Í tilefni dagsins, gangandi á strætum Reykjavíkurborgar, þakkaði ég Guði á himninum fyrir örlæti hans og elsku við okkur minni fuglana. Og molana sem féllu af borði þeirra stærri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.