Sumar hinnar mestu veðurblíðu er nú senn á enda. Veðurblíðu sem virtist koma öllum á óvart. Veðurvitar hafa spáð regni og aftur regni á tímum götótts Ósonlags og hækkandi hitastigs. En svo allt í einu, þvert ofaní orð vitringanna, kemur þetta yndislega sumar, heitt, bjart og mannelskandi. Og þjóðin hér á norðurhjaranum, á mörkum hins byggilega heims, eins og sagt er, hefur að mestu verið ber að ofan. Viku eftir viku. Guði sé lof fyrir veðurblíðuna.
Högum okkar spúsu minnar, (henni er raunar meinilla við orðið spúsa, sem þó hefur fremur jákvæða merkingu samkvæmt orðabók Eddu, en þar segir: „spúsa, kvk. heitmey, eiginkona,; spúsi, kk. unnusti, festarmaður, eiginmaður.” Einnig segir frá sögninni að spúsa sig, þ.e. trúlofast, giftast) hefur verið þannig háttað í sumar að við gátum dvalið sumarfríið okkar og allar helgar við smíðar og sóldýrkun uppi í sveit. Og fylgst með önnum bændanna í nágrenninu. Þessa hef ég reyndar getið áður.
En það sem mig langaði að nefna í dag er sú viðbótaránægja sem gefst þegar heim er komið. Eftir helgarnar. Þá bíður manns Morgunblað tveggja daga og sú ánægja sem því fylgir að teyga í sig efni þess um mannlífið, þjóðlífið, stjórnmálin. Fréttir að utan og heiman, aðsent efni og bréf til blaðsins. Allt skrifað af hinu mætasta fólki í hinum ýmsu greinum, störfum og gildum þjóðarinnar. Vissulega er Morgunblaðið kletturinn í íslenskri fjölmiðlun og sá eini sem leggur sig fram um að mæta þörf fólks með efni sem hjálpar því að mynda sér sæmilega grundaðar skoðanir í einu og öðru máli.
Sérlega ánægju vakti Lesbókin þessa helgi. En hún er meira og minna helguð skáldskap. Og sál mín gleðst við. Þrjár síður um Gljúfrastein. Þá sex síður um væntanlegar bækur. Skáldsögur, ævisögur, þýðingar og ljóð. (Mér hefði þótt fara betur ef ljóðin hefðu verið framar í röðinni.) Þá skrifar Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslensku, grein um endurútgáfu á þrem bóka Indriða G. Þorsteinssonar. Dagnýju kynntist ég í Undirstraumum og líkaði vel.
Að síðustu leyfi ég mér að vekja athygli á þrem brotum úr bók Matthíasar Johannessen. Málsvörn og minningar heitir hún. Í þriðja brotinu segir m.a:
„Sumir fréttamenn stunda helst róg og níð um fólk sem oftast á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér. Snákarnir eru ekki í grasinu á Íslandi, þeir eru í pólitík og þeir hafa hreiðrað um sig í fjölmiðlum, þótt þar sé einnig margt hæfileikafólk.”
Og síðar í þriðja brotinu:
„Fréttamenn eru eins og hundaeigendur. Þeir geta haft ánægju af skepnum sínum, en þurfa að hafa gætur á þeim, svo að umhverfið kafni ekki í hundaskít.”