Segðu mér Sókrates

Það linnir aldrei aðdáun minni á gáfuðu fólki. Svo að ég nú tali ekki um ef það er einnig vel menntað. En bæði þessi hugtök, „gáfað” og „menntað”, eru þó að sjálfsögðu afstæð. Og þótt ég hafi einhverja skoðun á því hvað sé að vera gáfaður eða og menntaður, þá má ég alveg eins reikna með því að skoðun mín sé óáreiðanleg og byggð á sandi. Því ég er hvorki gáfaður né menntaður. Það er þess vegna ekki svo auðvelt að treysta eigin skoðunum

Ef ég vitna í einn af þessum viðurkenndu gáfuðu mönnum, Descartes, sem flokkaður er með meiriháttar heimspekingum, þá hafði hann komist að þeirri niðurstöðu að menn skyldu aldrei taka mark á sjálfum sér. Hann skrifaði: „Fyrir allmörgum árum varð mér ljóst að ég hafði frá ungum aldri talið margar rangar skoðanir réttar, og að hvað eina sem ég hafði síðan byggt á þeim, hlaut að vera vafasamt.”

Þeir hafa sagt margt athyglisvert þessir ágætu menn sem helguðu líf sitt leit að dýpri skilningi á einhverju sem kallað er sannleikur, staðreynd eða óhagganleiki. Og tilgangur þeirra virðist oftast hafa verið að öðlast þekkingu sem líkleg var til að bæta vegferð mannkynsins á jörðinni. Þannig er til dæmis með hugtakið réttlæti. Það er aldeilis magnað og margslungið orð. Hefur að minnsta kosti hundrað meiningar. Eftir því frá hvaða hagsmunaviðhorfum er litið.

Aftan á fyrra bindi Ríkisins, eftir hinn mikla hugsuð, Platon, er tilvitnun sem hljóðar svo: „…Þú hlýtur að taka eftir því, Sókrates, þótt einfaldur sért, að réttlátur maður ber alls staðar minna úr býtum en hinn rangláti.” Þetta er skemmtileg setning. Og skemmtilegar eru bækurnar um Ríkið. Einkar fróðlegt er að lesa þær á þessum dögum, þegar allskyns Íslendingar koma fram í allskyns fjölmiðlum og geipa. Geipa hver um annan þveran. Svo undrun sætir.

„Segðu mér Sókrates, á hvaða leið eru allir þessir menn?”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.